Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 16:43:04 (2962)

2003-12-06 16:43:04# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[16:43]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að starfshópurinn hallaðist að þessari línulegu útfærslu sem hv. þm. hafa gert grein fyrir. Hins vegar breytir það því ekki að samkomulagið sem var kynnt fyrir ríkisstjórn var upp á 1 milljarð kr. Það samkomulag er verið að uppfylla.

Hins vegar hefur það komið fram að starfshópurinn fjallaði um þessa útfærslu og ég lét reyna á hvort hægt væri að fara þessa leið strax í því fjárlagafrv. sem við vorum að samþykkja. Þegar svo reyndist ekki ákvað ég að leggja fram frv. með þeim meginatriðum sem eru í því, aldurstengingu örorkubóta og tvöföldun fyrir yngstu öryrkjana, en miðað við þá upphæð sem var í samkomulaginu.

Síðan, eins og kom fram í framsöguræðu minni, á enn þá eftir að reikna út aldurstenginguna. Ekki eru enn þá öll kurl komin til grafar en það verður vissulega gert.