Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 16:49:42 (2966)

2003-12-06 16:49:42# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[16:49]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Meginatriðið í þessu máli er að 25. mars var kynnt samkomulag við öryrkja sem hafði verið samþykkt í ríkisstjórn Íslands og sagt að samkomulagið tæki gildi 1. janúar 2004 og að í það ætti að verja 1 milljarði kr. Það er það sem við erum að framkvæma.

Eftir það er fjallað, m.a. í starfshópi og í óformlegum viðræðum, um ákveðna útfærslu á þessum aldurstengdu örorkubótum. Um það snýst málið. Það er ekki verið að svíkja neitt en þarna er ákveðin útfærsla sem kostar meiri fjármuni. Hins vegar er kjarni þessa máls sá að öll atriði samkomulagsins eru uppfyllt og til þess er varið 1 milljarði kr. sem er stórkostlegur árangur fyrir réttindabaráttu öryrkja í þessu landi. Ég held að í sjálfu sér sé ekki deilt um það og því ber auðvitað að fagna. Ég er stoltur af að hafa tekið þátt í að koma þessu mikla baráttumáli öryrkja um kerfisbreytingu í höfn sem vonandi verður á næstu dögum.