Endurhæfingardeild fyrir krabbameinssjúklinga

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 11:04:21 (2988)

2003-12-10 11:04:21# 130. lþ. 46.2 fundur 262. mál: #A endurhæfingardeild fyrir krabbameinssjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 130. lþ.

[11:04]

Ásta Möller:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Ég vil lýsa því yfir að lýsingar hennar á starfseminni á göngudeildinni í Kópavogi fyrir krabbameinssjúklinga eru allar sannar. Þetta er rétt. Ég hef kynnt mér þessa starfsemi. Ég hef einnig rætt við einstaklinga sem hafa notið þessarar þjónustu. Endurhæfingin sem þarna fer fram skiptir þessa einstaklinga verulega miklu máli, ekki eingöngu til að ná upp líkamlegum styrk á ný heldur ekki síður að ná félagslegri og andlegri hæfni á ný. Þarna hafa þessir einstaklingar haft tækifæri til þess að ráða ráðum sínum sín á milli og styrkja hverjir aðra. Sú endurhæfing er virkilega mikilvæg og styður við þá faglegu endurhæfingu sem fer þarna fram.

Það má kannski einu gilda hvort þessi starfsemi fari fram í Kópavogi eða annars staðar. Hún hefur virkað mjög vel í Kópavogi og kannski er ekki ástæða til þess að breyta því. En umhverfið þar hefur nýst afar vel.