Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 15:03:33 (3043)

2003-12-10 15:03:33# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, StP
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[15:03]

Steinunn K. Pétursdóttir:

Virðulegi forseti. Mér hefur þótt dapurlegt að fylgjast með vandræðagangi ríkisstjórnarflokkanna í þessu svokallaða línuívilnunarmáli. Augljóst hefur verið allt frá því skömmu eftir kosningar í vor að flokkarnir ætluðu sér ekki að standa við gefin loforð um að sjávarbyggðum landsins yrðu færðar auknar veiðiheimildir með svokallaðri línuívilnun, þar sem bátar og jafnvel skip sem veiddu með línu áttu að fá 20% uppbót á kvóta sína í þorski og 50% uppbót á kvóta sína í svokölluðum aukategundum á borð við ýsu, steinbít og ufsa, ef þeir notuðu línu við veiðarnar.

Það er of langt mál að rekja allan loforðaflaum frambjóðenda og kosningasmala stjórnarflokkanna varðandi línuívilnun fyrir kosningarnar í vor en auðvelt er að finna margar greinar og ummæli þar sem loforð þeirra um línuívilnun komu skýrt fram.

Hér má nefna ekki ómerkari menn en sjálfan forsrh. Davíð Oddsson, hæstv. samgrh. Sturlu Böðvarsson og hæstv. forseta Alþingis Halldór Blöndal og einnig hv. þm. Hjálmar Árnason, bara svo dæmi séu tekin, frú forseti. Allir þessir virðulegu herramenn fóru niðrandi orðum um sjávarútvegsstefnu Frjálsl. á meðan þeir hófu til skýjanna eigin umhyggju fyrir málefnum hinna dreifðu sjávarbyggða og þeir hömruðu á því hve ábyrgir þeirra eigin flokkar áttu að vera í fiskveiðistjórnarmálum.

Það þurfti svo ekki að koma á óvart að miklar vöflur komu á hæstv. sjútvrh. eftir að honum varð ljóst að ríkisstjórnarmeirihlutinn hafði skrimt í alþingiskosningunum og að hann yrði krafinn efnda á loforðaflaum kosningabaráttunnar. Þjóðin varð þess brátt áskynja að hæstv. sjútvrh. og raunar ríkisstjórnin öll hefði lítinn áhuga á að efna loforðin um línuívilnun og að þau kæmu til framkvæmda í haust eins og meira að segja hæstv. forsrh. hafði gefið út með tilþrifum þar sem hann fór um á blankskóm og milli beitningaskúra á Ísafirði í lok apríl þegar kosningabaráttan var í hámarki og skoðanakannanir bentu til þess að báðir ríkisstjórnarflokkarnir mundu gjalda afhroð í kosningunum.

Frú forseti. Ég ætla ekki að eyða dýrmætum ræðutíma í að rekja þann línuívilnunarfarsa sem við höfum orðið vitni að hjá stjórnarflokkunum nú í haust. Ég vil þó minna á að fólk í hinum dreifðu sjávarbyggðum gleymdi ekki loforðinu eins og berlega kom í ljós á fjölmennum opnum fundi sem haldinn var á Ísafirði í september. Þar voru mættir þingmenn allra flokka úr mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, og allir töluðu fjálglega um að setja á bæði línuívilnun og einnig svokallað gólf í fjölda sóknardaga hjá smábátum sem róa með handfærum yfir sumartímann þannig að fjöldi sóknardaga hjá þessum bátum yrði aldrei færri en 23 dagar á hverju fiskveiðiári eins og þeir voru í ár, sl. fiskveiðiár. Eina undantekningin var kannski hæstv. samgrh. Sturla Böðvarsson sem var mjög loðinn og óskýr í málflutningi sínum. (Gripið fram í: Hann er það alltaf.)

Mig langar að benda virðulegum þingheimi á að allar framsöguræður þingmanna og einnig svör við spurningum sem fram komu á þessum fundi er að finna á heimasíðu Frjálslynda flokksins, xf.is.

Þrátt fyrir að mikill þrýstingur hafi myndast bæði á ríkisstjórn og þingmenn stjórnarflokkanna um að standa við gefin loforð um línuívilnun þá hefur verið átakanlegt að verða vitni að því að þarna fylgdi nánast enginn hugur máli. Hæstv. sjútvrh., sem hefði átt að láta blóðið renna sér til skyldunnar og efna það loforð sem er að finna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, hélt að sér höndum og gekk reyndar þannig frá málum og lýsti því yfir að línuívilnunin kæmi ekki til framkvæmda fyrr en kannski á næsta ári. Hann sýndi engin lífsmerki í málinu. Það var ekki fyrr en eini þingmaður stjórnarflokkanna sem hefur sýnt staðfestu í þessu máli, eini þingmaður stjórnarflokkanna sem virðist taka loforð þessara flokka úr kosningabaráttunni alvarlega --- hér á ég við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson sem jafnframt er varaformaður sjútvn. --- það var ekki fyrr en hann hafði kynnt frv. sitt um línuívilnun í sjútvn. og allt útlit var fyrir að meiri hluti Alþingis mundi styðja það að þá fyrst sá hæstv. sjútvrh. sæng sína upp reidda. Honum hafði verið stillt upp við vegg af sjútvn. Alþingis og reyndar meiri hluta þingsins. Þá fyrst, ekki fyrr en í lok síðustu viku reyndist hæstv. sjútvrh. með lífsmarki. Hann lagði fram frv. um línuívilnun sem í dag er tekið til 1. umr. á Alþingi.

Frú forseti. Ég tel að þetta frv. hæstv. sjútvrh. sé meingallað og til þess fallið að stórauka deilur um sjávarútvegsmál hér á landi og var vart á bætandi eftir 20 ára misklíð vegna kvótakerfisins sem hefur klofið þjóðina í fylkingar og valdið bæði biturð og sundrungu.

Hæstv. sjútvrh. vill haga málum þannig að afli og áætlaður afli vegna línuívilnunar dagróðrabáta verði dreginn frá þeim heildarkvóta sem ákveðinn er fyrir hvert fiskveiðiár áður en afgangi kvótans er skipt á milli skipa. Afli vegna línuívilnunar á sem sagt ekki að koma sem viðbót við það sem menn vilja að sé ákveðið í kvóta á grundvelli fremur brokkgengra vísinda eins og dæmin hafa sannað heldur skal þessi afli tekinn af heildinni. Þetta tel ég, frú forseti, að gangi þvert á þær væntingar sem flestir höfðu um línuívilnun enda hafa talsmenn hennar ávallt talað um að línuívilnunaraflann ætti ekki að taka frá neinum heldur kæmi hann sem viðbót. Forsvarsmenn stjórnarflokkanna hafa hingað til ekki haft fyrir því að leiðrétta þetta enda sennilega líklegt til óvinsælda ef upp hefði komist um að taka ætti línuívilnunaraflann af heimildum annarra. Bara þetta atriði mun nægja til hatrammra deilna um línuívilnun.

Síðan vill hæstv. sjútrh. skerða svokallaða byggðakvóta til smábáta sem stunda veiðar með krókum næstu tvö fiskveiðiár og nota þá í pott sem á að duga fyrir þeim afla sem áætlað er að veiðist með línuívilnun. Þetta á eftir að valda deilum enda minntist enginn á það að til stæði að afnema byggðakvóta til að koma línuvilnun á þegar loforðin voru gefin fyrir kosningar.

Ég vil líka vekja athygli á því að engar stærðartakmarkanir eru samkvæmt frv. hæstv. sjútvrh. hvað varðar dagróðrabáta sem veiða með línu og eiga að njóta línuívilnunar. Einu skilyrðin samkvæmt frv. eru að bátar stundi róðra sem vari ekki lengur en 24 klukkustundir eða einn sólarhring hver róður og að línan eigi að vera handbeitt og stokkuð upp í landi. Ég tel að þetta muni leiða til þess að stórir bátar sem geta stundað jafnt úthafsveiðar með línu og línuveiðar nálagt ströndinni muni taka til sín verulegan hluta af þeim afla sem áætlaður er í línuívilnunina. Stærri bátar geta róið þegar veður eru það válynd að smábátaflotinn kemst ekki á sjó. Nútímaúthafslínuskip geta verið að í mjög vondum veðrum og það er erfitt að sjá að útgerðir þessara skipa muni ekki bara breyta búnaði sínum þannig að beitningavélum um borð í þeim verði lagt til hliðar en í staðinn róið með handbeitta línubala. Það væri hægðarleikur að stunda slíka dagróðra til að mynda frá hinum ýmsu höfnum meðfram ströndinni þar sem stutt er á gjöful fiskimið. Menn eru, að ég held, tilbúnir til að leggja ýmislegt á sig til að fá 16% uppbót á þorskkvótann og kannski ótakmarkaða uppbót af ýsu og steinbít.

Það má sem sagt leiða líkur að því að þessi línuívilnun muni ekki gagnast smábátaflotanum og þar með minni sjávarbyggðunum nema að hluta þar sem línufloti stóru útgerðarfyrirtækjanna muni gera út á fyrirhugaða línuívilnun nái hún fram að ganga með þeim hætti sem hæstv. sjútvrh. leggur til. Það verður mjög ójafn leikur ef smábátar eiga kannski að fara að keppa við rúmlega 200 tonna línuveiðiskip. Það býður sennilega þeirri hættu heim að smábátasjómenn fari að róa í slæmum veðrum í samkeppni við úthafsveiðiskipin.

Ég vil líka benda á að línutrillur sem nota svokallaða beitutrekt við veiðar sínar virðast ekki falla undir skilgreiningu þeirra báta sem eiga að fá að notfæra sér línuívilnun. Það verð ég að segja, frú forseti, að er með hreinum ólíkindum. Talsmenn smábátaeigenda hafa einnig með réttu nú þegar bent á að þetta dæmi stóran hluta smábáta til að mynda á Norðurlandi og Austfjörðum og einnig við suður- og suðvesturströndina sjálfkrafa úr leik þegar kemur að línuívilnun.

Frú forseti. Ég vil einnig fá að nota tækifærið til að lýsa yfir undrun minni á því að hæstv. sjútvrh. noti nú tækifærið og auki þann prósentuhluta sem nota má í svokallaða tegundatilfærslu, þ.e. að einni fisktegund í kvóta sé breytt í aðra samkvæmt ákveðnum reiknistuðlum, en þó ekki í þorsk. Hér reynir hæstv. ráðherra að mínu mati að nota tækifærið til að gefa kvótaeigendum dagsins í dag færi á að breyta til að mynda ýsukvótum sem nóg er til af í aðrar tegundir eins og karfa og grálúðu. Þetta mun fyrst og fremst gagnast stórútgerðinni sem gerir út á úthafsveiðiskip. Það er eftirsóknarvert nú að breyta ýsukvótanum í eitthvað annað. Verð á ýsu er lágt og kvótinn á ýsu hefur verið stórlega aukinn og raunar er vandséð að hann veiðist á fiskveiðiárinu. Hér er á ferðinni enn eitt dæmið um fáránleika kvótakerfisins og ég fæ ekki séð að þessi hringlandaháttur með tegundatilfærslu eigi heima í frv. um línuívilnun.

Virðulegi forseti. Ég vil að auki benda á enn einn galla við frv. hæstv. sjútvrh. Hann varðar atriði sem miklu mikilvægara hefði verið að taka á en þessa svokölluðu tegundatilfærslu. Það er mál sem hv. þm. Jón Bjarnason kom inn á áðan. Þar er um að ræða dagafjölda svokallaðra sóknardagabáta sem róa með handfærum yfir sumartímann. Þetta eru um 300 bátar sem hver um sig hafði 21 sóknardag til umráða á síðasta fiskveiðiári. Dögum þessara báta hefur fækkað um 10% undanfarin ár. Þessi þróun mun halda áfram ef ekkert verður að gert þannig að á næsta ári stefnir í að dagar á hvern bát verði aðeins 18. Við í Frjálsl. höfum lagt til að sett verði í lög að fjöldi sóknardaga þessara krókabáta fari aldrei niður fyrir 23 daga árlega og að þeim verði fjölgað um einn fyrir hverja 20 þús. tonna aukningu í þorskkvóta.

Við teljum mjög mikilvægt að verja afkomugrundvöll þessa bátaflota sem stundar vistvænar veiðar sem hafa lítil sem engin áhrif á fiskstofnana og skapa mikla vinnu víða um land yfir sumartímann. Ekki er minnst einu orði á þessa báta í því frv. sem hæstv. sjútvrh. leggur fram og því er augljóst í mínum augum að hann vill að þessi floti verði fyrir frekari skerðingu í framtíðinni eflaust til að búa til það sem hann vill sennilega kalla svigrúm fyrir línuívilnun.

Frú forseti. Sú staðreynd að ekkert er gert til að rétta hlut sóknardagabátanna mun valda mikilli sundrungu í röðum smábátasjómanna. Þeir sem gera út dagabáta í dag munu varla sætta sig við áframhaldandi skerðingu sem bætist ofan á gæftaleysi á síðasta ári á sama tíma og smábátasjómenn sem róa með línu eiga að fá uppbót.

Virðulegi forseti. Framkomið línuívilnunarfrv. hæstv. sjútvrh. er ómögulegt hvernig sem á það er litið og sá grunur læðist óneitanlega að manni að ráðherrann og ráðgjafar hans hafi vísvitandi soðið saman lagafrv. sem þeir vita fyrir fram að muni ekki ganga upp heldur einungis hleypa öllu í háaloft þannig að þeir geti komið til baka eftir einhver missiri og sagt við þjóðina: ,,Þarna sjáið þið. Þessi línuívilnunarhugmynd er ómöguleg.``

Við í Frjálslynda flokknum höfum aldrei stutt þessa línuívilnun. Hún er hugarfóstur stjórnarflokkanna sem báðir notuðu hana óspart sem beitu fyrir kjósendur sína í kosningabaráttunni og settu að lokum í stjórnarsáttmála sinn í vor. Stefna Frjálslynda flokksins var að fara allt aðra leið svo að hinar dreifðu sjávarbyggðir mættu ná aftur vopnum sínum og nýtingarrétti á hinum dýrmætu fiskimiðum sem eru lífæð mannlífs úti á landi. Við hefðum frekar viljað að svokallaðar aukategundir yrðu teknar út úr kvóta þegar strandveiðiflotinn er annars vegar. Þar er átt við tegundir eins og þær sem ég vék að áðan, ýsu, steinbít, ufsa og keilu. Með strandveiðiflota er átt við þau skip sem landa fersku hráefni til vinnslu í landi. Þetta hefði verið mun vænlegri leið en sú uppskrift að hatrömmum illdeilum með miðstýringu ríkisvaldsins á atvinnurétti fólksins í landinu sem hæstv. sjútvrh. hefur nú lagt fyrir hið háa Alþingi.