Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 20:58:26 (3098)

2003-12-10 20:58:26# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[20:58]

Jón Bjarnason (andsvar):

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er góður leikari. Ég vitnaði fyrst og fremst í orð þingmannsins sjálfs. Hann sagði að þetta væri sáralítið frumvarp en um það væri þyrlað gríðarlegu moldviðri og við hefðum heyrt í fjölmiðlum undanfarið yfirlýsingar svo stórkostlegar að halda mætti að heimsendir væri í nánd. En þetta eru bara örfá tonn sem er verið að taka af dagabátunum, þau ein sér.

Ég er því ekki viss um, virðulegi forseti, að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson ríði feitum ... (Gripið fram í: Hverju?) ... hesti --- ég ætlaði að fara að segja gelti --- um Vestfirði ef þetta frv. fer óbreytt í gegn. Ég bara skora á hv. þm. að styðja þá sem vilja gera breytingar á þessu frv. þannig að það verði að einhverju gagni varðandi krókaaflamarksbátana, dagabátana, og það að línuívilnun verði í raun línuívilnun og hluti af byggðatengdri og vistvænni fiskveiðistjórn.