Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 17:58:14 (3214)

2003-12-11 17:58:14# 130. lþ. 48.12 fundur 11. mál: #A virðisaukaskattur# (hljóðbækur) frv. 145/2003, KolH
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[17:58]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Ég tek undir þau orð sem hér hafa fallið. Ég fagna afgreiðslu efh.- og viðskn. á þessu máli og tel hafa verið stigið skref í sanngirnisátt. Eins og málum hefur verið háttað hafa hljóðbækur af þessu tagi verið hærra skattlagðar, í hærra þrepi, en ritaðar bækur. Í sjálfu sér var ekkert sem mælti með því að hlutunum væri þannig fyrir komið. Við flutningsmenn þessa frv. litum því svo á að hér væri um leiðréttingu að ræða. Það er leiðrétting sem kemur afskaplega mörgum mjög vel.

Það ber einnig að hafa í huga að notkun hljóðbóka hefur aukist talsvert mikið. Framleiðsla þeirra er meiri en nokkurn óraði fyrir þegar þessi framleiðsla fór af stað. Það verður að segjast eins og er, að útgefendur kappkosta að gefa sem flestar nýjar bækur sem koma út á íslensku og íslenskar bækur á hljóðbókum jafnframt. Ég sé ekki annað en að hér sé að verða mikil vakning í þessum efnum og að hljóðbækur séu að opna fólki leið að bókmenntum okkar sem áður átti þær ekki greiðar.

Ég fagna því sérstaklega að efh.- og viðskn. skuli hafa tekið þennan pól í hæðina, þ.e. hlýtt á þau rök sem fylgdu þessu máli úr hlaði og lýsi yfir afskaplega mikilli ánægju með að svona skyldi hafa verið tekið á málinu.