Gjald vegna ólögmæts sjávarafla

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 23:16:22 (3226)

2003-12-11 23:16:22# 130. lþ. 48.16 fundur 254. mál: #A gjald vegna ólögmæts sjávarafla# (rannsóknir og nýsköpun) frv. 146/2003, GMJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[23:16]

Grétar Mar Jónsson (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi segja frá því að skoðun mín er sú að þessi 5% hafróafli hefði þurft að vera 10% og áhafnir skipa og útgerð hefðu þurft að fá helminginn af því aflaverðmæti sem kæmi fyrir þann fisk sem landað er hjá Hafró. Ég held að það hefði verið til góða, dregið úr brottkasti og stuðlað að því að þessi fiskur kæmi fremur á land. Ég tel of mikið brottkast enn þá. Það hefði verið hægt að laga það með því að hækka prósentuna úr 5% í 10%, sem menn mættu koma með fyrir utan kvóta og menn gætu fengið helminginn af því aflaverðmæti til sín.

Að öðru leyti hef ég ekki neinu við að bæta um þetta frv. Í 1. umr. komu helstu sjónarmiðin fram sem ástæða var að vekja athygli á.