2003-12-12 00:21:53# 130. lþ. 48.20 fundur 421. mál: #A jarðgöng undir Vaðlaheiði# þál., Flm. HlH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[24:21]

Flm. (Hlynur Hallsson):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þáltill. þess efnis að Alþingi feli hæstv. samgrh. að kanna til hlítar, í samráði við heimamenn, grundvöll þess að ráðast í gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, Dagný Jónsdóttir, Einar Már Sigurðarson, Sigurjón Þórðarson og Þuríður Backman, og kann ég þeim bestu þakkir fyrir það.

Góðar samgöngur eru lífæð nútímasamfélags og forsenda farsællar byggðaþróunar. Samgöngur eiga að tryggja aðgengi að vörum og þjónustu, auðvelda samskipti og tengsl manna á milli og gera fólki kleift að búa þar sem hugur þess stendur til. Tenging Akureyrar og Þingeyjarsýslu er hagsmunamál fyrir íbúa á þessu stóra svæði. Eyjafjörðurinn og Suður-Þingeyjarsýsla eru nú þegar eitt atvinnu- og menningarsvæði og með bættum samgöngum er hægt að auðvelda öll samskipti til muna.

Samgöngukerfið hefur tekið miklum breytingum hér á landi á síðustu áratugum og víða skipt sköpum um þróun byggða og atvinnulífs. Ekki síst hefur gerð jarðganga breytt miklu fyrir heilu byggðarlögin, tengt saman bæi og stækkað atvinnusvæði. Gott dæmi um þetta eru Ólafsfjarðargöng.

Eyþing, sem er samstarfsvettvangur sveitarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu og í Þingeyjarsýslu, hefur beitt sér mjög fyrir því að hafinn verði undirbúningur fyrir gerð jarðganga undir Vaðlaheiði og stofnað hefur verið félag sem ber nafnið Greið leið hf., sem vinnur að framgangi málsins.

Samgöngur um Eyjafjörð og frá honum til allra átta ráða ekki síst miklu um það hvort tekst að efla Akureyri sem höfuðstað Norðurlands sem bæði stjórnvöld og almenningur virðast telja æskilegt. Það var mikil samgöngubót fyrir tveimur áratugum þegar vegurinn um Víkurskarð austur um í Þingeyjarsýslu kom í staðinn fyrir illfæran, brattan og krókóttan veg yfir Vaðlaheiði. Það var árið 1983. Umferð um Víkurskarðsveginn hefur aukist mikið á síðustu árum, að meðaltali 6% árlega og er það mun meira en landsmeðaltal. Meðalumferð um Víkurskarð var 931 bíll á dag árið 2002, það eru 500--600 bílar að jafnaði á dag að vetrinum, en umferðin er mun meiri á sumrin eða um og yfir 2.000 bílar á dag. Gera má ráð fyrir að umferð aukist mikið um Víkurskarð á næstu árum. Vaðlaheiðargöng mundu stytta þjóðveg nr. 1 á milli Austurlands og Eyjafjarðar um 6--8% og milli Akureyrar og Húsavíkur um 15--20%.

Mikilvægt er að hafist verði nú þegar handa við að undirbúa verkefnið og setja það á samgönguáætlun, sem verður endurskoðuð á næsta ári. Ef það reynist arðbært og skynsamlegt er raunhæft að áætla að hægt verði að hefjast handa við gerð Vaðlaheiðarganga ekki síðar en árið 2009.

Hugmyndir hafa verið uppi um að byggja og reka göng undir Vaðlaheiði í svokallaðri einkaframkvæmd. Þar hefur m.a. verið vísað til Hvalfjarðarganga sem voru byggð og eru rekin af hlutafélagi með lítilli aðstoð eða aðkomu ríkisins. Ríkið er þó hluthafi og sá auk þess um og kostaði tengingu jarðganganna við þjóðvegakerfið. Skoða þarf hvort þetta sé hagkvæm leið. Veggjöld eru ekki sérlega vinsæl en geta þó orðið til þess að flýta fyrir framkvæmdum. Í þessu samhengi er einnig hægt að hugsa sér að tekið verði gjald af þeim sem kjósa að fara um göngin en framkvæmdin gæti þó verið á vegum ríkisins. Það er vitað að ríkisvaldið hefur aðgang að hagstæðari lánum til verkefna en einkaaðilar og þegar vaxtakostnaður er stór hluti af rekstrarkostnaði getur sá þáttur skipt miklu máli um arðsemi.

Það er margt sem þarf að skoða í sambandi við Vaðlaheiðargöng. Frumathugun hefur farið fram hjá Vegagerðinni og í skýrslu sem unnin var af Hreini Haraldssyni og Kristínu H. Sigurbjörnsdóttur kemur fram að gert er ráð fyrir að byggja tvíbreið göng, rúmlega 7 km löng. Framkvæmdartími er áætlaður um þrjú ár. Kostnaður við byggingu jarðganga er áætlaður 4,3 milljarðar kr. og er kostnaður við rannsóknir, hönnun og eftirlit meðtalinn.

Í skýrslu Vegagerðarinnar eru reiknuð út fjögur dæmi um mismunandi þátttöku ríkisins í stofnkostnaði til að finna út hvað veggjaldið þyrfti að vera hátt til að göngin borgi sig upp á mismunandi tíma. Ef ríkið greiðir 50% af stofnkostnaði ganganna, þ.e. 2.180 millj. kr., og miðað er við 15 ára lánstíma þyrfti gjald fyrir fólksbíl að vera um 630 kr. með virðisaukaskatti og gjald fyrir flutningabíl um 2.200 kr. Miðað við lánstíma í 30 ár yrði gjald fyrir fólksbíl að vera um 450 kr. og gjald fyrir flutningabíl um 1.575 kr. með virðisaukaskatti.

Hugmyndin um Vaðlaheiðargöng hefur fengið byr undir báða vængi með athugun og niðurstöðum Jóns Þorvaldar Heiðarssonar hagfræðings sem hann kynnti á ráðstefnu Byggðarannsóknastofnunar á Akureyri þann 28. nóvember sl. um samgöngubætur, samfélag og byggð. Jón Þorvaldur skrifaði MS-ritgerð um Vaðlaheiðargöng með það að markmiði að varpa ljósi á hvað slík göng kostuðu ríkissjóð ef þau yrðu gerð í einkaframkvæmd, en einnig kannaði hann hvort raunhæft væri að gera tvenn göng og jafnframt hvort arðvænlegt væri að gera meðalstóra virkjun samhliða Vaðlaheiðargöngum. Við athuganir sínar lagði Jón Þorvaldur m.a. til grundvallar umferðarspá, orkuverðsspá og tímasetningu framkvæmda.

Þessar hugmyndir eru athyglisverðar. Göng sem lægju undir heiðina allmiklu sunnar en gert var ráð fyrir í frumskoðun Vegagerðarinnar og önnur í framhaldinu undir Vaglafjall handan Fnjóskár. Í tengslum við þá leið setur Jón Þorvaldur fram nýstárlega hugmynd um 10--18 MW virkjun í Vaðlaheiði og telur að það gæti orðið hagkvæmur kostur. Hugmyndin er innlegg í umræðuna, en mikið skortir þó á rannsóknir til þess að hægt sé að gera sér grein fyrir arðsemi og ekki síst umhverfisáhrifum slíkrar framkvæmdar.

Þessi þáltill. miðar að því að sett verði í gang ferli sem svari t.d. eftirfarandi spurningum:

Hvaða áhrif munu Vaðlaheiðargöng hafa á Eyjafjörð og Þingeyjarsýslu sem eitt atvinnusvæði?

Eru möguleikar á sameiningu sveitarfélaga með tilkomu ganga?

Munu göng hafa áhrif á skólamál, aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu?

Hvað með flugsamgöngur, munu göng styrkja grundvöll fyrir beinu flugi frá Akureyri til útlanda?

Hvaða áhrif hafa göng á ferðamennsku almennt?

Hvaða áhrif munu göng hafa á Vaglaskóg sem útivistarsvæði og sumarbústaðabyggð, t.d. í Fnjóskadal?

[24:30]

Nú er það svo að mikið er talað um jarðgöng hér og þar. Ég er ekki talsmaður þess að við borum göt í gegnum öll fjöll hvar sem þau eru. Við getum lært af frændum okkar Færeyingum sem fóru heldur geyst í jarðgangagerð. Það er óþarfi að gera sömu mistökin oft. En það er hins vegar full ástæða til að kanna málið. Ef jarðgöng í gegnum Vaðlaheiði reynast arðbær og skynsamleg fjárfesting er rétt að hefja undirbúning framkvæmda. Það yrði hluti af heildarstefnumörkun á sviði samgangna í landinu.

Mörg brýn verkefni í samgöngumálum bíða úrlausnar. Eitt af þeim er að útrýma einbreiðum brúm á þjóðvegi 1. Forgangsverkefni í jarðgangamálum eru svo Siglufjarðargöng. Göng undir Vaðlaheiði eiga að komast á dagskrá á næstu árum ef menn telja það hagkvæmt.

Það gætir oft leiðindamisskilnings, sem beitt er gegn okkur í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, að við séum á móti öllum virkjunum. Svo er auðvitað alls ekki. Við erum hlynnt arðbærum, umhverfisvænum rennslisvirkjunum sem ekki hafa í för með sér óafturkræfan skaða fyrir náttúruna. Hvort virkjun á þessum stað fellur undir þá skilgreiningu þarf að skoða vandlega. Að loknum þeim rannsóknum er hægt að taka ákvörðun.

Jarðgöng undir Vaðlaheiði gætu orðið mikil samgöngubót og lyftistöng fyrir atvinnulíf á aðliggjandi svæðum. Þau gætu stytt vegalengdir um 15--22 km eftir því hvaða leið yrði farin. Þau mundu auka umferðaröryggi til muna. Ljóst er að miklu verki er ólokið við undirbúning og útfærslu hugmynda um jarðgangagerð undir Vaðlaheiði. Mikilvægt er að hefjast handa við það verkefni hið fyrsta. Að því miðar þessi tillaga.