Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 12:11:25 (3276)

2003-12-12 12:11:25# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[12:11]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér er nú eiginlega um og ó að fara að kenna gömlum skólameistara einfalda samlagningu í reikningi. Ég ætla þó að gera eina tilraun á 50 sekúndum.

Í gildandi lögum eru 1.500 tonn í bráðabirgðaákvæði. Það eru 2.300 tonn í 3. mgr. 9. gr. Svo eru í öðrum ákvæðum 9. gr. 1.500 tonn. Samtals eru þetta 5.300 tonn í ýmsum tegundum.

Seinni 1.500 tonnin eru hluti af 12 þús. pottinum sem hv. þingmanni verður tíðrætt um. Þar segir að við megum aldrei verja meira en 1.500 tonnum af þessum 12 þús. til byggðaaðgerða. Þess vegna höfum við hámark í gildandi lögum upp á 5.300 tonn. Eftir breytingarnar þá er það hámark sem við megum nota til byggðaúthlutunar 12 þús. allur potturinn.

Þar sem ráðstafað er samkvæmt tveimur ákvæðum báðum jafnréttháum þá er það sem við höfum til byggðaúthlutunar miðað við aflabrest síðustu ára tæplega 7 þús. tonn. Við erum því að auka byggðakvótann um 1.500 tonn, herra forseti, með þessari breytingu.