Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 16:07:04 (3296)

2003-12-12 16:07:04# 130. lþ. 49.96 fundur 241#B sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), Flm. JBjart (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[16:07]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík geymir úttekt Ríkisendurskoðunar á rekstri og árangri af sameiningu Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítala sem endanlega var ráðist í á vormánuðum árið 2000.

Sú niðurstaða skýrslunnar að fjárhagslegur ávinningur hafi ekki orðið hefur vakið mesta athygli og verið slegið upp í fyrirsögnum. En ef skýrslan er lesin kemur í ljós að megininntak hennar eru ábendingar um hvað megi bæta svo kostir sameiningarinnar nýtist til fulls og hvað sé óunnið við að nýta þá möguleika sem hið nýja fyrirkomulag gefur. Í skýrslunni sjálfri segir að henni sé ætlað að veita ábendingar um hvað þurfi að leggja áherslu á í áframhaldandi uppbyggingu Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Margt af því sem bent er á er vissulega þegar að finna í framkvæmd, annað er vel á veg komið og sumt jafnvel á lokastigi, t.d. kostnaðargreining læknisverka, en annað á langt í land og kallar á stórauknar fjárheimildir Alþingis.

Þörfin fyrir að endurskilgreina hlutverk og verksvið Landspítala -- háskólasjúkrahúss er eitt af því sem bent er á í skýrslunni. Lögð er áhersla á að móta stefnu fyrir spítalann þar sem helstu spurningum um framtíð hans sé svarað og á þörfina fyrir að skilgreina hlutverk hans innan heilbrigðiskerfisins í heild. Sjúkrahúsið þarf að vera hlekkur í samfelldri og heildstæðri þjónustu við sjúklinga þar sem sérhver aðili innan kerfisins hefur skýrt verksvið og sinnir því sem hann er hæfastur til. Vinnu við þessa stefnumótun og hlutverk innan heilbrigðisþjónustunnar hefur hæstv. heilbrrh. þegar hrundið af stað með aðkomu fulltrúa stjórnar- og stjórnarandstöðuflokka hér á þingi. Í vinnu að endurskoðun heilbrigðisþjónustulaganna ætla ég að m.a. verði horft til samþættingar og samstarfs innan og á milli heilbrigðisstofnana og skilgreiningar og þjónustu heilsugæslunnar annars vegar og sérfræðiþjónustunnar hins vegar.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er auk annars áréttuð nauðsyn þess að forsendur fyrir aðstreymi sjúklinga séu skýrar og að liður í því sé að skýra hlutverkaskiptingu dag- og göngudeildar Landspítala -- háskólasjúkrahúss og sjálfstætt starfandi sérfræðilækna. Sumir þeirra eru því miður enn beggja vegna borðsins, bæði starfandi á sjúkrahúsum og á stofum úti í bæ. Því skapast oft hagsmunaárekstur þegar ákvörðun er tekin um hvert sjúklingi er beint auk þess sem þetta getur leitt til þess að afkastageta Landspítalans sé vannýtt á tilteknum sviðum. Í ljósi þess hversu mikilvægt er fyrir aukna hagkvæmni í rekstri sjúkrahússins að geta fært sem mest af rekstri legudeilda á dag- og göngudeildir er sérstaklega mikilvægt að stjórn þess hafi meiri áhrif á hvaða verkefni berast til þessara deilda.

Framleiðslumælingu og kostnaðargreiningu er í skýrslunni gefinn mjög góður gaumur. Til grundvallar ákvörðunum um verkaskiptingu þurfa í hverju tilviki að liggja málefnalegar ástæður, þar með talin gæða- og hagkvæmnisrök, en forsenda þeirra er kostnaðargreining einstakra verka og þjónustu á heilbrigðissviði. Undanfarin ár hefur verið unnið á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi að því að kostnaðargreina öll læknisverk með svokallaðri DRG-greiningu og sér brátt fyrir endann á þeirri vinnu. Þessi kostnaðargreining hefur margþætt gildi, m.a. má nota hana til að greina hvaða læknisverk eru unnin á hagkvæman hátt og hver ekki, og líka til að bera skilvirkni og kostnað á Landspítalanum saman við önnur sjúkrahús auk þess sem hún er nauðsynleg forsenda mats á hagkvæmni og ákvörðunum um hverjum skuli falið að vinna verk og veita heilbrigðisþjónustu. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er lögð áhersla á að þessi vinna nýtist vel við ákvarðanir um verkaskiptingu í heilbrigðiskerfinu. Þar segir jafnframt að tryggja þurfi að öll þjónusta á sjúkrahúsinu og í heilbrigðiskerfinu í heild sé kostnaðargreind, ekki aðeins læknisverk á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

Herra forseti. Um árabil hefur staðið til að byggja upp rafræna sjúkraskrá og samtengja skráningu upplýsinga í heilbrigðiskerfinu en undirbúningur þessa verkefnis hefur farið fram innan ramma íslenska upplýsingasamfélagsins auk þess sem Landspítalinn og Heilsugæslan í Reykjavík hafa unnið að undirbúningi hvor á sínu sviði. Ég ætla að óumdeilt sé að mikið hagræði verði af slíku kerfi fyrir skráningu, miðlun og nýtingu upplýsinga. Það er auk þess til þess fallið að koma í veg fyrir tvíverknað, tryggja öruggari, betri og greiðari þjónustu við sjúklinga og auka alla skilvirkni innan heilbrigðisþjónustunnar. Við uppbyggingu slíks kerfis þarf auðvitað að tryggja, eins og oft hefur verið rætt á hinu háa Alþingi, öryggi sjúklinga og takmörkun aðgangs með tilliti til persónuverndarsjónarmiða.

Slíkt kerfi innan Landspítala -- háskólasjúkrahúss, segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar, er ein forsenda þróunar kerfisbundinna gæðamælikvarða sem hafi orðið útundan á Landspítalanum á undanförnum árum en þó sé nauðsynlegur þáttur í upplýsingagjöf sjúkrahússins að geta sýnt fram á gæði þjónustunnar með reglubundnum hætti. Það sem helst hindrar þetta eru ófullnægjandi rafræn upplýsingakerfi sjúkrahússins og heilbrigðiskerfisins í heild. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Skýrsla Ríkisendurskoðunar er betri grundvöllur fyrir málefnalega umræðu um heilbrigðismál en yfirleitt stendur til boða. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrrh. hvernig hann ætli að fylgja henni eftir.