Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 16:12:35 (3297)

2003-12-12 16:12:35# 130. lþ. 49.96 fundur 241#B sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[16:12]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Umræðu um Landspítala -- háskólasjúkrahús ber að fagna og ég þakka formanni heilbr.- og trmn. Alþingis fyrir að taka málið upp með þeim hætti sem hér er gert. Hér er fjallað um skýrslu Ríkisendurskoðunar um sameiningu spítalanna sem nú eru Landspítali -- háskólasjúkrahús. Hún er um margt merkileg, mest fyrir þær sakir að hún sýnir að spítalinn er almennt séð góð stofnun. Þar starfar afar hæft starfsfólk sem veitir góða þjónustu, langtum betri þjónustu en veitt er til að mynda í Bretlandi sem að mestu er tekið til samanburðar.

Í umræðum um skýrsluna, sem fram að þessu hafa verið takmarkaðar, hefur borið mest á að sameiningin hafi ekki verið nægilega vel undirbúin. Það má færa rök fyrir þeirri skoðun en það má líka færa gildari rök fyrir að kominn hafi verið tími til að hætta að tala um sameininguna, láta af skýrslum með úttektum og láta verkin tala. Það er það sem gert var. Allar skýrslurnar, álitin og allar hugmyndir sérfræðinganna sem rannsökuðu kosti og galla sameiningar sögðu það sama: Það ber að sameina spítalana. Með sameiningunni hafa sérgreinar styrkst, spítalinn stendur sterkari en áður í faglegum skilningi. Það er ekki vafi í mínum huga um að til framtíðar höfum við lagt grunn að góðum spítala sem veitt getur sjúklingum þá þjónustu sem við Íslendingar gerum kröfu til.

Við höfum einnig lagt grunninn að öflugri kennslu- og rannsóknastofnun. Við höfum lagt grunn að landspítala sem getur borið sig saman við sambærilegar stofnanir í öðrum löndum, spítala sem veitir góða þjónustu og tryggir að við getum boðið sérhæfðum heilbrigðisstarfsmönnum upp á krefjandi aðstæður. Það kemur í veg fyrir að við missum okkar besta fólk til annarra landa.

Virðulegi forseti. Spurt er hvernig heilbrrh. hyggist fylgja skýrslu Ríkisendurskoðunar eftir. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. hefur nefnd þegar tekið til starfa sem á að skilgreina hlutverk spítalans í heilbrigðisþjónustunni. Henni er gert að skila áliti sínu eftir fimm mánuði. Í henni eru alþingismenn, sérfræðingar og fulltrúar spítalans, svo einhverjir séu nefndir. Sú nefnd fer m.a. ofan í öll þau atriði sem koma fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og þarfnast nánari skýringa eða skilgreininga við.

[16:15]

Landspítali -- háskólasjúkrahús er ekki eyland þó að hann sé þungamiðja þjónustunnar við þá sem eru alvarlega sjúkir. Hann er ekki eyland af því að það sem gerist annars staðar í heilbrigðisþjónustunni hefur vitaskuld áhrif á umfang starfseminnar á spítalanum. Á þetta bendir Ríkisendurskoðun í skýrslu sinni. Þjónusta heilsugæslunnar dróst t.d. tímabundið saman á höfuðborgarsvæðinu. Það jók auðvitað álagið á spítalann. Vaxandi þörf fyrir hjúkrunarrými aldraðra hefur komið niður á spítalanum og því sem kallað hefur verið fráflæðisvandi hans og fjallað er um í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Virðulegi forseti. Við höfum tekið á mörgum þeim þáttum sem nefndir eru í skýrslunni. Stórátak hefur verið gert í því síðustu missirin að bæta þjónustu heilsugæslunnar og beina mönnum þangað enda æskilegt að þar sé fyrsti viðkomustaðurinn í heilbrigðiskerfinu. Samningur hefur verið gerður við Læknavaktina og þjónusta hennar efld. Átak hefur verið gert í heimaþjónustu, í uppbyggingu hjúkrunarrýma fyrir aldraða og þannig mætti lengi telja. Á næsta ári verjum við heilum milljarði í þrjár nýjar stöðvar heilsugæslunnar, allt til að létta á spítalanum og beina fólki frá bráðadeildum inn í heilsugæsluna með það fyrir augum að fínstilla það viðkvæma gangverk sem við köllum heilbrigðiskerfi.

Stefnumótunarvinnan sem Ríkisendurskoðun lýsir eftir er hafin og hefur algjöran forgang. Það þarf að efla dag- og göngudeildarþjónustu spítalans enn frekar og er unnið af fullum krafti í að skipuleggja húsnæðismál spítalans til framtíðar. Kostnaðargreining er í mikilli framsókn á vettvangi hans og á að ljúka árið 2005.

Herra forseti. Því er ekki að leyna að veikleiki heilbrigðisstofnana mörg undanfarin ár felst í því að stjórnendum þeirra gengur illa að halda rekstrinum innan fjárheimilda sem við á Alþingi ákveðum. Þetta gildir líka um Landspítala -- háskólasjúkrahús, eins og ég hef áður gert að umtalsefni í þessum stól. Launaþróunin og lyfjakostnaður veldur miklu þar um.

Á tímabilinu 1998--2003 voru fjárheimildir til launahækkana í heilbrigðiskerfinu í heild 54%. Samkvæmt reikningi varð raunin 62% hækkun launa á tímabilinu. Launavísitala opinberra starfsmanna og bankamanna hækkaði á þessu tímabili um 50% og neysluverðsvísitalan um 24%. (Forseti hringir.) Þó að ég dragi þetta sérstaklega fram þá er ég ekki að leggja til launalækkun starfsmanna í heilbrigðisþjónustunni. Ég kem nánar að því máli síðar í seinni ræðu minni.