Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 16:22:06 (3300)

2003-12-12 16:22:06# 130. lþ. 49.96 fundur 241#B sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[16:22]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Sameining Landspítala og Borgarspítala var og er enn umdeilanleg. Nú hefur Ríkisendurskoðun skilað af sér góðri skýrslu um hvernig til hefur tekist á mismunandi sviðum og hvað vantar á að sameiningin skili tilætluðum árangri og sé erfiðisins virði.

Mikil orka og kostnaður hefur farið í að sameina sjúkrahúsin. Þeir þættir voru frá upphafi vanmetnir og hefur það því miður komið niður á almennri þjónustu sjúkrahússins. Sameiningin er sögð hafa styrkt þjónustu við sjúklinga og eflt kennslu- og rannsóknarstarf. En hún leiddi ekki til sparnaðar eins og vænst hafði verið. Sameiningin, eins og ég sagði, kostaði sitt.

Ríkisendurskoðun kemst einnig að því að afköst spítalans hafi ekki aukist frá 1990--2002 en starfsmönnum hafi fækkað um 250. Talað er um að framleiðni á hvern starfsmanna hafi aukist. Það má einnig orða svo að álag á hvern starfsmann hafi aukist. Ég tel mikilvægt, herra forseti, að fylgst sé grannt með því hvort álag sé ekki orðið of mikið á ákveðnar starfsstéttir og deildir.

Nokkurt jafnvægi virðist vera að komast á starfsemi sjúkrahússins því að afköst hafa aukist á þessu ári. Talið er að svo hefði orðið áfram ef fjárframlög til sjúkrahússins hefðu tekið mið af rekstrarafkomu þessa árs og fjárþörf sjúkrahússins miðað við óbreytta starfsemi. Stjórnendum spítalans er gert að spara það háar fjárhæðir að frekara aðhald í rekstri nægir ekki til að láta enda ná saman. Skerðing á þjónustu er því eina leiðin sem þeir geta farið og hafa stjórnendur brugðist hratt við og lagt fram tilögur um hvernig þeir telji hægt að halda rekstri innan fjárlaga án þess að skerða bráðaþjónustuna. Samkvæmt fréttum hafa bæði hæstv. heilbrrh. og fjmrh. samþykkt áætlunina.

Hvert á sú heilbrigðisþjónusta að fara sem veitt hefur verið fram til þessa á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi og á nú að taka út úr rekstrinum? Verður hún lögð niður? Verður hún færð yfir á sveitarfélögin, á önnur sjúkrahús eða einkareknar stofnanir? (Forseti hringir.) Sjúklingar gufa ekki upp, herra forseti. Þeir eru á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi af því að þeir þurfa á þjónustu að halda.