Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 16:24:28 (3301)

2003-12-12 16:24:28# 130. lþ. 49.96 fundur 241#B sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), StP
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[16:24]

Steinunn K. Pétursdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Jónínu Bjartmarz, fyrir að færa þetta mál til umræðu á Alþingi.

Sameining spítalanna hefur ekki enn skilað þeirri fjárhagslegu hagræðingu sem vænst var. Launakostnaður hefur aukist um tæpa 4 milljarða kr. frá því sem var er sjúkrahúsin störfuðu hvort í sínu lagi. Sé annar kostnaður tekinn með í reikninginn kemur í ljós að rekstur sjúkrahúsanna hefur samtals aukist um 7 milljarða kr. Hins vegar er rétt að taka fram að svo virðist sem gæði þjónustunnar sem Landspítali -- háskólasjúkrahús veitir séu meiri en þjónustu sjúkrahúsa í Bretlandi sem notuð eru til samanburðar í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Verulegt áhyggjuefni er þó, herra forseti, að fjárheimildir Landspítala -- háskólasjúkrahúss eru í engu samræmi við útgjöld og stjórnendur spítalans eru ekki öfundsverðir af því að standa frammi fyrir því á hverju ári að endar nái ekki saman í rekstrinum. Þau ráð sem grípa þarf til eru ávallt þau sömu, fækkun starfsfólks og lokun deilda. Þessar aðgerðir bitna vitanlega helst á þeirri þjónustu sem sjúklingar þarfnast.

Herra forseti. Hver er þá ávinningurinn af sameiningunni eins og staðan er í dag? Hafa þau markmið náðst sem stefnt var að? Þeim spurningum er vandsvarað þar sem svo virðist sem markmiðin fyrir sameiningu hafi ekki verið sett nægjanlega skýrt fram áður en hafist var handa. Stefnumótunin á að vera á ábyrgð stjórnvalda og hún verður að vera skýr, ekki síst þegar jafnmiklir fjármunir eru í húfi og í heilbrigðiskerfinu.

Ég er þess fullviss að Landspítali -- háskólasjúkrahús getur bætt starfsemi sína á ýmsum sviðum frá því sem nú er. Ég tel að útfærslan á stefnumótuninni, þ.e. forgangsröðun og framkvæmd hennar, ætti að vera í höndum fagaðila innan heilbrigðiskerfisins sjálfs. Uppi hafa verið hugmyndir um einkavæðingu á þessu sviði. Við í Frjálsl. tökum ekki undir þau sjónarmið að einkavæðing leiði sjálfkrafa til hagkvæmni í rekstri.