Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 16:26:49 (3302)

2003-12-12 16:26:49# 130. lþ. 49.96 fundur 241#B sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), DJ
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[16:26]

Dagný Jónsdóttir:

Herra forseti. Landspítali -- háskólasjúkrahús geldur þess stundum að vera endastöðin í heilbrigðisþjónustunni, spítalinn sem tekur við því sem aðrir gera ekki, spítalinn sem ávallt tekur við því sem vísað er á hann, spítalinn sem við gerum kröfu til að sinni bæði kennslu og rannsóknum. Það liggur í kröfunum sem við gerum til spítalans og í stöðu og skilgreiningu hans í heilbrigðisþjónustunni að það er nánast útilokað að áætla í upphafi árs útgjöldin sem falla þar til. Þess vegna verður hann oft fyrir ómálefnalegri gagnrýni. Ég segi ómálefnalegri vegna þess að ég veit að starfsfólk og stjórnendur spítalans standa sig oft vel og er kunnugt um þann góða árangur sem menn hafa náð víða á spítalanum.

Með því að halda á lofti faglegum ávinningi af sameiningu sérgreina er ég ekki að drepa umræðunni um fjárhagsvanda á dreif, fjarri því. Við verðum alltaf að hugsa um hvernig við verjum því fé sem við höfum til ráðstöfunar.

Herra forseti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram það mat að ávinningur og áhrif sameiningar hafi ekki komið fram nema að hluta. Bent er á að sóknarfærin séu til staðar, bæði hvað varðar þjónustu og starfsemi almennt og einnig í hagræðingu í rekstri sjúkrahússins. Við verðum einnig að hugsa um hvernig ástandið væri ef spítalarnir hefðu ekki verið sameinaðir. Ég er ansi hrædd um að við mundum þá horfa upp á enn verri stöðu en nú er uppi.