Málefni Landspítala -- háskólasjúkrahúss

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 10:18:01 (3324)

2003-12-13 10:18:01# 130. lþ. 50.92 fundur 243#B málefni Landspítala -- háskólasjúkrahúss# (aths. um störf þingsins), JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[10:18]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Þegar fjárln. afgreiddi fjárlagafrv. til 3. umr. mótmælti ég, greiddi atkvæði gegn því og sagði að frv. væri ekki tækt til 3. umr., það skildi eftir óafgreidda hluti eins og m.a. fjárvöntun Landspítala -- háskólasjúkrahúss og það lægi nákvæmlega fyrir frá forstöðumanni sjúkrahússins hvað vantaði til þess að halda rekstrinum óbreyttum. Ég taldi þetta afar óábyrga framkomu af hálfu meiri hlutans, mótmælti því og greiddi atkvæði gegn því í fjárln. Nú stöndum við frammi fyrir þessum orðna hlut og verið er að boða til stórfelldra uppsagna og skera niður starfsemi. Þetta var allt vitað og okkur var sagt þetta allt saman í fjárln. þannig að okkur kemur þetta ekki á óvart. Og nú talar hæstv. heilbrrh. um að það megi semja við sjúkrahúsið um að stefna í halla á næstu tveimur árum. Hver gefur þá heimild? Það var ekki tekið fyrir í fjárln. og ráðherra hefur ekki einu sinni heimild til slíks, allra síst meðan þing starfar.

Virðulegi forseti. Þetta er meint aðgerð gagnvart Landspítala -- háskólasjúkrahúsi. Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar í að skapa svigrúm fyrir þessar stórfelldu skattalækkanir sínar sem var lofað í kosningabaráttunni, stórfelldar skattalækkanir sem verða að koma niður á velferðarþjónustunni. Þetta lá fyrir og liggur fyrir.

Virðulegi forseti. Ég krefst þess hér að fjárln. taki málefni Landspítala -- háskólasjúkrahúss inn í nefndina og ræði fjárhag sjúkrahússins, fjárvöntun og hvernig eigi að bregðast við. Ef á að gera það með lántökum eða heimildum til að efna til skulda er það fjárln. og Alþingis að heimila það. Ég krefst þess hér í heyranda hljóði að málið fari til fjárln. Við höfum svigrúm. Úr því að Alþingi á að standa til mánudags höfum við svigrúm til þess núna yfir helgina. Tökum á þessu máli eins og menn.