Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 13:47:10 (3399)

2003-12-13 13:47:10# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, MÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[13:47]

Mörður Árnason (um fundarstjórn):

Forseti. Heimild til afbrigða er sett inn í þingsköp til þess að hægt sé að koma til móts við sérkennilegar aðstæður, mikla þörf á flýti og hraða. Meginregla þingskapa um að nokkur tími skuli líða frá því að mál er lagt fram og áður en það er tekið til umræðu er til þess að þingmenn hafi allir tíma til að kynna sér málið og til að almenningur, það fólk sem við störfum fyrir, hafi líka tíma til að kynna sér þau mál sem hér eru til umræðu. Þessi tillaga vekur furðu, þessi brtt. frá formanni allshn., og ég sé ekki ástæðu til að veita henni brautargengi með afbrigðum áður en ég hef haft tækifæri til að kynna mér hana. Ég vil gjarnan, ágæti forseti, að formanninum gefist tækifæri til þess að skýra hvers vegna hann setur þessa tillögu fram áður en leitað verður afbrigða.

(Forseti (BÁ): Forseti vill geta þess að það er óheimilt að gera grein fyrir tillögum áður en þær hafa verið teknar á dagskrá þannig að við verðum nú að leita afbrigða.)