Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 13:49:22 (3400)

2003-12-13 13:49:22# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[13:49]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég hef áður gert grein fyrir afstöðu minni til þessa frv. og ætla ekki að hafa mörg orð um það á þessu stigi. Menn hafa staðnæmst við ýmsa þætti frv., kannski hafa fyrst og fremst þeir þættir sem lúta að kjaramálum og launamálum og breytingum á þeim vakið mesta umræðu og gagnrýni í þjóðfélaginu almennt. Ég lét það koma fram við 1. umr. um frv. að ég teldi Alþingi vera komið út á hálar brautir varðandi ákvörðun um kjör þingmanna og ráðherra yfirleitt, menn gætu ekki bæði sleppt og haldið, falið Kjaradómi ákvörðunarvald en jafnframt haft afskipti af kjörunum innan veggja þingsins, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég tel að hér þurfi að vera mjög skýrar línur. Ég hef áður flutt þingmál um breytingu á þessu fyrirkomulagi og mun gera það að nýju á komandi ári.

Varðandi launakjörin almennt hefur það komið fram í máli mínu og annarra að sá munur sem er á kjörum innan veggja þingsins sé óeðlilega mikill. Þar vísa ég sérstaklega í kjör ráðherra sem hafa 80% ofan á þingfararkaupið. En ég hef jafnframt sagt að í því samhengi hafi mér ekki fundist óeðlilegt að skoða kjör formanna allra stjórnmálaflokka á þingi. Og mér finnst hafa verið ómaklega vegið að þeim og gefið í skyn að flokkar hafi verið keyptir til fylgis við frv. á þessum forsendum. Ég leyfi mér að fullyrða að formönnum stjórnarandstöðuflokkanna hér á Alþingi, öllum sem einum, hefur fundist þessi þáttur umræðunnar slæmur vegna þess að þeir hafa ekki verið að berjast fyrir eigin kjörum. Þeim hefur meira að segja fundist óþægilegt að þessum þáttum skuli hafa verið blandað inn í umræðu um breytingar á lífeyriskjörum þingmanna og ráðherra. Mér finnst hafa verið ómaklega að þeim vegið í þessari umræðu að þessu leyti. Ég vil að þetta komi fram, og þessi afstaða mín til launamála hér innan þingsins. Það er ljóst að þau þarf að taka til rækilegrar uppstokkunar.

Herra forseti. Í ljósi ummæla nokkurra ræðumanna frá stjórnarflokkunum við þessa umræðu, um að samkomulag hafi verið á milli allra flokka á þingi um þetta frv. og afgreiðslu þess, vil ég upplýsa eftirfarandi: Það er rétt sem sagt hefur verið að forsvarsmönnum stjórnarandstöðuflokkanna var af hálfu þeirra sem undirbjuggu málið kynnt að það væri í vinnslu og þeir upplýstir um helstu efnisatriði frv. Jafnframt voru þeir beðnir um að gæta algers trúnaðar um málið. Af þeirri ástæðu einni er fráleitt að tala um að málið hafi verið unnið í samvinnu allra stjórnmálaflokkanna hér á Alþingi eða að gert hafi verið eitthvert samkomulag um afgreiðslu þess. Til þess hefði að sjálfsögðu þurft að kynna málið, ræða það og kanna viðbrögð þingmanna. Það var ekki gert enda, eins og áður sagði, beðið um að gætt yrði ýtrasta trúnaðar. Það sem meira er, af hálfu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs kom fram skýrt og greinilega að í okkar röðum í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs kæmi fram mikil andstaða við frv. ef það yrði lagt fram. Það eru síðan vonbrigði hvernig málið hefur þróast hér í þinginu því það er eitt að leggja frv. fram og að standa að slíku og svo er hitt, hvernig málið er meðhöndlað og hvers konar afgreiðslu það hlýtur. Vísa ég þar í ræðu hv. þm. Þuríðar Backman.