Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 14:58:25 (3431)

2003-12-13 14:58:25# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[14:58]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem þingmaðurinn sagði. Það var samstaða um að leggja málið fram. Við höfum hins vegar verið að kynnast alveg nýrri túlkun á þeirri orðanotkun í dag. Samstaða um að leggja mál fram á þingi til skoðunar og meðferðar virðist þýða að það eigi að standa að því sem meiri hlutinn vill. Það er hárrétt að við fórum yfir málið. Ég lýsti því í morgun. En það er líka rétt að þetta var ekki mál sem menn áttu að koma sér saman um. Þetta var mál sem ekki mátti hrófla við ákveðnum þætti í, hvað þá að mögulegt væri að við fengjum tíma til að skoða hvað fleira við vildum hugsanlega fá inn í frv. af þessu tagi. Það er mergurinn málsins.

Ég lagði mjög að félögum mínum að við færum í þessa vinnu, þrátt fyrir að frá upphafi væru miklar gagnrýnisraddir um að málið kæmi með þessum hætti í frv. sem enginn veit enn þá hver vann. Ég verð að segja að ég var svo mikið barn, þrátt fyrir þingreynslu mína, að ég taldi að þegar ljóst væri að ekki næðist niðurstaða í málinu þá lægi málið. Þess vegna hef ég sagt að frá þeirri stundu varð það að meirihlutamáli.

Ég held að ég þurfi ekki að skýra þetta út oftar, virðulegi forseti, en orð hv. þm. gáfu mér tilefni til að árétta þetta.