Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 15:04:33 (3435)

2003-12-13 15:04:33# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[15:04]

Mörður Árnason (andsvar):

Herra forseti. Það var enginn misskilningur sem fór út í samfélagið að það ætti að hækka álagið á yfirstéttina í þinginu um 5%. Það stóð í því frv. sem sett var fram og ég hygg að hv. þm. Jónína Bjartmarz sé einn af flutningsmönnum þess ef ég man rétt. Hún hefur ekki svarað því hvers vegna þetta var lækkað. Var það kannski vegna þess að það stóð ótti af fjölmiðlum og af verkalýðsforingjum og af almenningi, þeim sem vissulega var ekki umræddur af hv. þm. Jónínu Bjartmarz heldur af hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni í þeim tón að það hefði verið ungt fólk sem væri að mótmæla úti á torgi? Það væru einhverjir tíu unglingar sem hefðu áhuga á þessu máli í samfélaginu. Ef það er þannig, þá er Bleik brugðið.