Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 15:24:30 (3441)

2003-12-13 15:24:30# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[15:24]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi síður þurfa að vera í ræðustól Alþingis með getgátur um embætti forsrh. Ég vildi óska þess að við gætum bara sýnt því meiri virðingu en svo. Þessi tala eins og hv. formaður allshn., Bjarni Benediktsson, staðfesti er auðvitað hluti af samtölunni og þó að hún hafi ekki verið tekin sérstaklega út ætti ekki að vera ofverk hv. formanns allshn. að kalla eftir þeirri tölu þannig að hægt sé að taka hana sérstaklega út og hún liggi hér á borðinu og málið sé hreint og opið. Það hlýtur að vera allra hagur. En ég mótmæli því að 300 millj. kr. kostnaður sé óverulegur kostnaður. Ég mótmæli þeirri fullyrðingu hv. þm. Bjarna Benediktssonar að 300 millj. kr. séu óverulegur kostnaður. Ég tel að 300 millj. kr. séu verulegir fjármunir og það hafi ekki almennt verið álitið svo að lífeyrisréttindi alþingismanna og ráðherra hafi hingað til verið vanhaldin.