Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 16:21:48 (3460)

2003-12-13 16:21:48# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, GÖrl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[16:21]

Gunnar Örlygsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vék að því í ræðu sinni að Frjálsl. væri ótrúverðugur stjórnmálaflokkur.

Ég spyr hv. þm. Kristin H. Gunnarsson hvort honum finnist það ótrúverðugt að þrír þingmenn Frjálsl. hafi frá upphafi verið andsnúnir þessu frv. Fjórði þingmaðurinn í þingflokki Frjálsl., hv. þm. Sigurjón Þórðarson, hefur endurskoðað hug sinn í málinu og þó sýnt það æðruleysi, eftir að hafa skoðað efnisinnihald frv. betur og greint kjarnann frá hisminu í þessu máli, að segja að það sé rangt.

Enn og aftur vík ég að þessum ótrúverðugleika eða trúverðugleika. Ég legg það í dóm þjóðarinnar hverjir eru trúverðugir og hverjir ekki. Þingflokkur Frjálsl. er alfarið á móti frv. og ég spyr þjóðina og hv. þm.: (Gripið fram í: Sigurjón flytur það.) Hvort er trúverðugra fólk sem er á móti þessum jólapökkum til ráðamanna þjóðarinnar núna í svartasta skammdeginu eða það fólk sem er andsnúið þeim?