Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 8. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 8  —  8. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um raforkukostnað fyrirtækja.

Flm.: Sigurjón Þórðarson, Kristján L. Möller.


    
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa þriggja manna nefnd sem fái það verkefni að fara yfir mismunandi gjaldskrár orkuveitna og kanna hvort raforkukostnaður fyrirtækja sé mismikill eftir því hvaða orkuveita þjónar þeim. Komist nefndin að því að orkuverð fyrirtækja er mishátt eftir orkuveitum er henni falið að meta hvort mismunun fyrirtækja eftir því hvar þau eru á landinu skekki samkeppnisstöðu þeirra.

Greinargerð.


    Samtök raforku-, hita- og vatnsveitna, Samorka, hafa gert samanburð á afltöxtum allra rafveitna í landinu og hefur þar komið fram að mikill munur er á raforkuverði til fyrirtækja eftir því hvar þau eru á landinu. Samorka setur upp dæmi sem sýna berlega að ótrúlega mikill munur er á því verði sem fyrirtæki greiða, t.d. annars vegar á Snæfellsnesi sem RARIK þjónar og hins vegar í Reykjavík sem OR þjónar. Dæmi er tekið af fyrirtæki sem þarf að greiða 1.632.790 kr. á ári fyrir rafmagn á starfssvæði RARIK, t.d. á Blönduósi, en ef sama fyrirtæki væri í Reykjavík greiddi það einungis 1.252.648 kr. Munurinn er um 30%.
    Nefndinni ber að fara ítarlega yfir gjaldskrár og útreikninga og í framhaldinu að kanna hvort mishátt gjald á raforku skekki samkeppnisstöðu fyrirtækja í landinu.