Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 89. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 89  —  89. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)


1. gr.

    4.–7. mgr. 2. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2004.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að ákvæði 4.–7. mgr. 2. gr. laga um tryggingagjald verði felld brott. Sú breyting felur í sér að heimild launagreiðanda til lækkunar á tryggingagjaldi, sem nýta á sem iðgjald á móti iðgjaldi launamanns í tilviki séreignarlífeyrissparnaðar, er felld niður.
    Með lögum nr. 148/1998, um breyting á lögum um tryggingagjald, var fjórum nýjum málsgreinum bætt við 2. gr. laganna þar sem kveðið var á um lækkun tryggingagjalds launagreiðanda um allt að 0,2%, en þó ekki meira en sem næmi 10% af iðgjaldshluta launamanns samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þessa lækkun skyldi nýta sem iðgjald launagreiðanda á móti iðgjaldi launamanns til viðbótarlífeyrissparnaðar.
    Framangreind breyting á lögum um tryggingagjald var gerð í framhaldi af breytingum á lögum um tekjuskatt og eignarskatt þar sem heimildir einstaklinga til skattafrádráttar vegna lífeyrisiðgjalda voru rýmkaðar. Þannig var launamönnum og þeim sem unnu við sjálfstæða starfsemi heimilt frá og með 1. janúar 1999 að lækka skattskyldar tekjur sínar um allt að 2% verðu þeir fjárhæðinni til lífeyrissparnaðar samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Með breytingum á lögum um tekjuskatt og eignarskatt vorið 2000 var þessi heimild hækkuð úr 2% í 4% auk þess sem heimild til lækkunar á tryggingagjaldi hækkaði úr 0,2% í 0,4%.
    Við gerð kjarasamninga í kjölfar lagabreytinganna frá 1998 var síðan samið um sérstakt framlag frá launagreiðanda á móti greiddu framlagi launþegans í viðbótarlífeyrissparnað.
    Meginmarkmiðið með þessum breytingum var tvíþætt, annars vegar að skapa skilyrði fyrir aukinn þjóðhagslegan sparnað og hins vegar að efla lífeyrissparnað landsmanna jafnframt því að auka vitund og sjálfsákvörðunarrétt þeirra yfir þessu sparnaðarformi. Framangreindar breytingar hafa svo sannarlega náð markmiðum sínum með vaxandi þátttöku launþega ár frá ári í þessari sparnaðarleið. Samningar um mótframlag atvinnurekenda hafa án efa stuðlað að því hversu vel hefur tekist til.
    Af þessu má draga þá ályktun að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins hafi náð settu marki og vel það. Sparnaður í formi viðbótarlífeyris hefur náð góðri fótfestu meðal landsmanna sem eðlilegt sparnaðarform og því ekki lengur nein þörf sértækra ráðstafana á þessu sviði, sbr. lækkun tryggingagjaldsins. Í frumvarpinu er því lagt til að heimild til lækkunar tryggingagjalds vegna viðbótarlífeyrissparnaðar verði afnumin. Áfram verður í fullu gildi sá hvati til viðbótarlífeyrissparnaðar sem felst í frádrætti iðgjalds frá skattskyldum tekjum og mótframlagi vinnuveitenda.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 113/1990,
um tryggingagjald, með síðari breytingum.

    Með breytingu á lögum um tryggingagjald sem gerð var á árinu 1998 var launagreiðendum heimilað að lækka skil á tryggingagjaldi til ríkissjóðs um allt að 0,2%, eða sem svaraði til 10% af 2% iðgjaldi launþega í séreignarlífeyrissjóð, og greiða þennan hluta tryggingagjaldsins sem mótframlag til viðbótar við iðgjald launþegans. Árið 2000 var heimildin síðan hækkuð í 0,4%, eða sem svaraði til 10% af 4% iðgjaldi. Í fjárlögum hefur verið gert ráð fyrir þessu með því að færa mótframlagið til gjalda en á móti er tryggingagjald fært að fullu á tekjuhlið ríkissjóðs án frádráttarins. Markmiðið með þessari lagasetningu var annars vegar að stuðla að auknum sparnaði og hins vegar að hvetja launafólk til að styrkja lífeyriseign sína. Í kjarasamningum á árunum 2000 og 2001 var síðan haldið áfram á þessari braut en þá var samið um sérstök mótframlög frá launagreiðendum, sem almennt eru allt að 2%, á móti iðgjöldum launþega í viðbótarlífeyrissparnað. Þátttaka launþega í þessari sparnaðarleið hefur farið sívaxandi ár frá ári og þykir því ekki vera þörf lengur fyrir sérstök lagaákvæði til að stuðla að þessum sparnaði með sértækum hætti. Er því lagt til í þessu frumvarpi að þessi sérstaka heimild til ráðstöfunar á hluta tryggingagjaldsins verði felld niður.