Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 284. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 322  —  284. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um rannsóknir á afdrifum laxa í sjó.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Einar Karl Haraldsson, Lúðvík Bergvinsson,


Rannveig Guðmundsdóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Einar Már Sigurðarson,
Bryndís Hlöðversdóttir, Brynja Magnúsdóttir, Jón Gunnarsson, Helgi Hjörvar, Guðmundur Árni Stefánsson, Ásgeir Friðgeirsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir rannsóknum á sjávarvist laxa. Markmið rannsóknanna verði að kanna tengsl á milli annars vegar umhverfisaðstæðna í hafi og hins vegar vaxtar, affalla og endurheimta.
    Lögð skal sérstök áhersla á að beita nútímamælitækni til að kortleggja ferðir fullorðinna laxa í hafi með það fyrir augum að finna hvar og á hvaða stigi sjávarvistarinnar hin gríðarlegu afföll laxa verða í hafinu, kanna orsakir þeirra og leita leiða til að minnka þau. Rannsóknunum skal svo hagað að hægt sé að leggja mat á afdrif fullorðinna, síðkynþroska laxa sem kunna að sleppa úr kvíaeldi hér við land.
    Við skipulag og framkvæmd rannsóknanna skal leitast við að ná samvinnu við grannþjóðir þar sem eldi laxa og veiðar á stöng hafa efnahagslega þýðingu.

Greinargerð.


    Tillaga þessi felur í sér rannsóknir sem brýnt er að samstarf takist um milli undirstofnana landbúnaðarráðuneytis og sjávarútvegsráðuneytis, þ.e. Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknastofnunarinnar. Æskilegt væri jafnframt að ná rannsóknartengslum við þær þjóðir sem í vaxandi mæli hafa varið fjármagni til rannsókna á sjávarvist Atlantshafslaxa. Ekki er síður brýnt að efla gott samstarfi við fyrirtækið Stjörnu-Odda. Það er langfremst í heiminum á sviði háþróaðra fjarmælinga sem hægt er að nýta með áföstu rafmerki á fiski til að skrá staðsetningu, seltu, dýpi og ferðalag og hraða milli staða. Ekki verður nógsamlega undirstrikað hversu miklu auðveldara er nú en áður að rannsaka háttsemi fiska í hafi, og raunar annarra sjávardýra einnig, með þróun fyrirtækisins á rafmerkjum. Þar hafa íslenskir atorkumenn staðið frábærlega að verki í góðu samstarfi við vísindamenn. Nú þegar hafa slíkar mælingar verið undirstaða nýrra og mjög merkilegra upplýsinga um ferðir og hátterni sjóbirtings í straumvötnum Suðurlandsins, auk stórurriðans í Öxará.
    Ástæðan fyrir flutningi tillögu þessarar er tvíþætt: Í fyrsta lagi eru flutningsmenn þeirrar skoðunar að það sé löngu tímabært að kanna lífsferil laxins í hafi. Vaxandi vísbendingar eru um að breytingar í hafinu valdi auknum afföllum meðan á sjávarvist stendur. Lítt er hins vegar vitað um hvaða þættir það eru sem hafa rýrt afkomu hans þar. Því ber ríka nauðsyn til að leggja aukna áherslu á rannsóknir á lífsferli Atlantshafslaxins meðan hann dvelur í sjónum, samhliða þeim öflugu rannsóknum sem Veiðimálastofnun og aðrir aðilar hafa með svo góðum árangri staðið fyrir á ferskvatnsstigi tegundarinnar. Í öðru lagi eru uppi mikil álitamál um afdrif strokulaxa úr sjókvíaeldi. Rannsóknir á afdrifum laxa í sjávarvist kynnu að gefa upplýsingar um afföll laxa á mismunandi aldri og þroskastigi og þar með auðvelda mat á þeirri áhættu sem laxeldi í sjókvíum fylgir.
    Íslenskir laxastofnar eru verðmæt auðlind. Áætlað er að heildarvelta sem tengist stangveiðum á laxi sé á bilinu 1.500–1.800 millj. kr. Þar af er talið að um 550–600 millj. kr. fáist fyrir sölu veiðileyfa. Tekjur af nýtingu íslensku laxveiðiánna eru mikilvægur þáttur í að byggð geti haldist í samfélögum sem eiga undir högg að sækja samfara hnignun hefðbundinna landbúnaðargreina. Hér á landi hefur verið gengið á búsvæði laxins í fersku vatni, fyrst og fremst vegna raforkuframleiðslu. Sláandi dæmi um það eru Elliðaárnar. Þá hefur gríðarlegt hlutfall búsvæða í fersku vatni tapast í grannlöndunum vegna mengunar af súru regni. Ofveiði í sjó, þar sem sjávarveiði er stunduð, er víða kennt um hnignun laxastofna. Á síðari árum hefur hins vegar verið dregið mjög verulega úr sjávarveiði á laxi vegna uppkaupa NASCO, sjóðs til verndar villtum laxi, á veiðirétti í hafi við Ísland, Grænland, Færeyjar og víðar, þar sem laxveiðar í sjó hafa verið stundaðar. Þar eiga Íslendingar drjúgan heiður af vel unnu verki, því að Orri Vigfússon hefur haft veg og vanda af stofnun og rekstri NASCO.
    Fiskeldi hefur verið nefnt sem neikvæður þáttur varðandi afföll í villtum laxi í sjó, svo sem útbreiðsla á sjúkdómum og erfðamengun. Gísli Jónsson, dýralæknir fisksjúkdóma, sagði þó á fundi SVFR 5. nóvember sl. að villtum laxi stafaði miklu minni hætta af sjúkdómum úr eldislaxi en menn teldu almennt. Hans mat var að það væri fyrst og fremst laxalús, sníkjudýr af toga krabbadýra, sem ylli búsifjum í villtum stálpuðum laxi sem synti nálægt eða héldi sig við kvíar og tæki þar á sig lýsnar. Nú væri hins vegar að miklu leyti búið að ná tökum á lúsinni, og þýddi það góðar fréttir fyrir villta stofna. Á sama fundi SVFR komu fram þverólíkar skoðanir á því hvaða áhrif laxeldi hefði á villta stofna. Guðni Guðbergsson, fiskifræðingur og deildarstjóri á Veiðimálastofnun, rakti nokkrar rannsóknir sem hann taldi benda til að erfðablöndun gæti haft óæskileg áhrif á villta stofna. Vigfús Jóhannsson, fiskifræðingur og formaður Landssambands fiskeldisstöðva, tók harkalega í annan streng, og sagði rangt að slíkar niðurstöður lægju fyrir. Af þessu má ljóst vera að sá hluti tillögu þessarar, sem lýtur að afdrifum og mögulegum áhrifum fullorðinna strokulaxa á villta stofna, er mjög brýnn og tímabær.
    Stofnar Atlantshafslax eru í sögulegri lægð víðast erlendis. Í Bandaríkjunum, þar sem forðum voru fræg laxveiðisvæði, er lax kominn á válista og búið að friða hann sums staðar, svo sem í Maine. Mannskepnan á stærsta sök á hnignun laxins. Á Íslandi er ekki unnt að merkja hnignun laxastofna í sama mæli og víða erlendis. Því miður er þó hægt að færa rök að því að lægðin í laxastofnum sem gætt hefur víðs vegar um Atlantshaf eigi eftir að koma fram með sterkari hætti hér á landi en við höfum orðið vör við til þessa. Ástæður þess að ástandið er betra hér en víðast annars staðar er m.a. unnt að þakka banni við veiðum á laxi í sjó innan íslensku efnahagslögsögunnar, að tiltölulega lítið hefur verið hróflað við búsvæðum laxfiska hérlendis miðað við stöðuna erlendis og að mengun er hér mjög lítil. Þrátt fyrir þetta er ljóst að miklar sveiflur einkenna laxgengd í íslenskar veiðiár, sérstaklega á Norðurlandi og Austurlandi. Orsakir slíkra sveiflna má rekja bæði til breytilegrar framleiðslu á laxaseiðum í fersku vatni og mjög breytilegra endurheimta á laxi úr sjó.
    Markvissar rannsóknir í nokkrum lykilám hérlendis hafa sýnt að hafið er einn stærsti orsakavaldurinn í stofnsveiflum á laxi og endurheimtur náttúrulegra laxaseiða hafa reynst á bilinu 2–22% þau ár sem upplýsingar liggja fyrir um. Undanfarin 15 ár hefur laxgengd almennt verið í lægð hérlendis. Á sama tíma hefur hlutfall stórlaxa (lax með tveggja ára sjávardvöl eða lengri) lækkað og það bendir til aukinna affalla á öðru ári í sjó. Á þessu tímabili var gerð tilraun með stórfelldar sleppingar laxaseiða til hafbeitar en endurheimtur seiða úr sjó hafa reynst það litlar að ekki er grundvöllur fyrir slíkri starfsemi. Almennt virðist því unnt að tengja þá lægð sem hefur ríkt í laxgengd hérlendis við aukin afföll laxa í hafi.
    Á undanförnum árum hefur verið unnið öflugt rannsóknarstarf sem varðar þá þætti sem áhrif hafa á framleiðslu á laxaseiðum í fersku vatni. Jafnframt hafa rannsóknir sýnt að umhverfi sjávar hefur gríðarleg áhrif á endurheimtu og vöxt laxa í sjó. Hins vegar vantar sárlega nauðsynlegar upplýsingar og skýringar á því hvaða þættir hafa mest áhrif á afkomu laxins í sjó. Fyrrgreind tækni, sem hefur verið þróuð á Íslandi, þar sem rafmerkjum sem mæla seltu, dýpi og hitastig er komið fyrir á fiski, hefur leitt til þess að rannsóknir í hafi eru nú miklu auðveldari en áður og skila meiri vitneskju.
    Helstu verkefni sem vinna þarf á þessu sviði eru eftirfarandi:
     1.      Mælingar á umhverfisþáttum. Rannsóknir hafa sýnt að marktæk fylgni er á milli sjávarhita vorið sem seiðin ganga úr ánum og veiði á smálaxi árið eftir og stórlaxi tveimur árum síðar. Þetta gildir sérstaklega í ám á Norðurlandi og Austurlandi. Nákvæmari og betri skráning á hitastigi sjávar þarf að vera fyrir hendi.
     2.      Beitarsvæði í sjó. Lítið er vitað um hvar íslenski laxinn heldur sig meðan á sjávardvöl stendur. Slík vitneskja skiptir höfuðmáli til að unnt sé að skýra og spá fyrir um breytingar á laxgengd. Ýmsir telja að beitarsvæði fyrir lax hafi dregist saman í Norður- Atlantshafi og sé það skýring á hnignun laxastofna við Atlantshafið. Með því að þróa og framleiða sérhæfð skráningartæki sem fest eru á seiði væri unnt að fá slíkar upplýsingar.
     3.      Lax- og fjölstofnarannsóknir. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að lax verði tengdur inn í rannsóknir á samspili fleiri tegunda. Ráðast þarf í fjölstofnaverkefni, þar sem lögð er áhersla á rannsóknir sem snúa bæði að fæðu laxa í sjó eftir árstíma og afræningjum laxa í hafi. Ýmsir telja þannig að aukning á stofnstærð sjávarspendýra hafi haft neikvæð áhrif á laxastofna. Vigfús Jóhannsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva, sagði til dæmis á fundi SVFR 5. nóvember sl. að stóraukin selagengd með minnkandi veiðum hefði leitt til stóraukins afráns á laxi. Þetta þarf að rannsaka, þótt hugsanlegt sé að upplýsingar um laxaát sela liggi fyrir í rannsóknargögnum, t.d. hjá Norðmönnum. Þá er vitað að nytjafiskar, t.d. þorskur og ufsi, éta sjógönguseiði í einhverjum mæli fyrst eftir að seiðin ganga til sjávar. Fjölstofnarannsóknir gætu leitt í ljós í hve miklum mæli afrán þessara tegunda á laxinum er.
    Erfitt er að leysa úr þeirri hörðu deilu sem nú eru uppi milli hagsmuna stangveiði og hagsmuna laxeldis. Staðhæfingar standa gegn staðhæfingu. Stangveiðimenn kenna strokulaxi um spillingu búsvæða, erfðablöndun sem dregur úr æxlunarþrótti, en allir þessir þættir eru líklegir til að valda hnignun stofna. Eldismenn segja á móti að engar rannsóknir bendi til að erfðablöndun spilli stofnum eða dragi úr afkomu stofna. Vigfús Jóhannsson, formaður Landssamtaka fiskeldisstöðva, hefur t.d. vakið máls á þeim möguleika að breytt veiðimynstur kunni að hafa dregið úr hlutfalli stórlaxa í veiðistofnum. Aukið veiðiálag fyrri part veiðitímans þegar stórlaxinn gengur úr hafi er meira en áður og telur Vigfús hugsanlegt að það hafi fleytt stórlaxinum, þ.e. laxi sem dvelur tvö ár í sjó, úr veiðinni. Þetta þarf að kanna með auknum rannsóknum. Þessi tillaga felur í sér að grafist verði fyrir um þá þætti sem valda afföllum laxa í sjó, og þar með hlutfalli stórlaxa og smálaxa í stangveiði. Auk vitneskju um líffræði og feril villtra laxa meðan á sjávarvist þeirra stendur eru slíkar rannsóknir einnig líklegar til að varpa ljósi á afdrif strokulaxa úr kvíum og þar með áhrif þeirra á villta laxastofna.