Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 328. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 380  —  328. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Í stað orðsins „Tryggingayfirlæknir“ í 3. mgr. 16. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur (í viðeigandi beygingarfalli): trúnaðarlæknir sjóðsins.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2004.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að felld verði niður ákvæði um að tryggingayfirlæknir Tryggingastofnunar ríkisins meti orkutap sjóðfélaga Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og að í hans stað muni trúnaðarlæknir sjóðsins annast matið. Vegna breyttra aðstæðna hjá Tryggingastofnun ríkisins hefur stofnunin óskað eftir því að umrædd ákvæði verði felld niður. Sú ráðstöfun að fela trúnaðarlækni sjóðsins matið er í samræmi við þá framkvæmd er tíðkast meðal annarra lífeyrissjóða.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 1/1997,
um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að felld verði niður ákvæði um að tryggingayfirlæknir Tryggingastofnunar meti orkutap sjóðfélaga Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Matið verði falið trúnaðarlækni sjóðsins eins og tíðkast hjá öðrum lífeyrissjóðum. Ekki er gert ráð fyrir að breytt tilhögun matsins að þessu leyti hafi umtalsverð áhrif á útgjöld ríkissjóðs.