Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 612. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1146  —  612. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu samninga milli Íslands, Grænlands/Danmerkur og Noregs um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen o.fl.

Frá utanríkismálanefnd.



         Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tómas H. Heiðar frá utanríkisráðuneyti, Kolbein Árnason frá sjávarútvegsráðuneyti og Friðrik J. Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Þá hélt nefndin fund með sjávarútvegsnefnd Alþingis þar sem farið var ítarlega yfir alla efnisþætti málsins.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta eftirtalda samninga um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen o.fl.: 1. samning milli Íslands, Grænlands/Danmerkur og Noregs um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen sem gerður var í Reykjavík 8. júlí 2003, 2. samning milli Íslands og Grænlands/Danmerkur um gagnkvæmar veiðar í fiskveiðilögsögu Íslands og Grænlands sem gerður var í Reykjavík 8. júlí 2003, og 3. tvíhliða samkomulag milli Íslands og Noregs sem gert var í Reykjavík 9. júlí 2003.
    Samningum sem áður giltu um loðnuveiði á hafsvæðinu milli Íslands, Grænlands og Jan Mayen var sagt upp af Íslands hálfu 30. október 2002 og féllu þeir úr gildi 1. maí 2003. Ástæða uppsagnarinnar var sú að ekki höfðu náðst samningar við Noreg um veiðar úr norsk- íslenska síldarstofninum og samningarnir hefðu framlengst sjálfkrafa um tvö ár ef þeim hefði ekki verið sagt upp. Samningarnir sem nú liggja fyrir eru nánast samhljóða fyrri samningum en gilda þó aðeins til eins árs í upphafi og framlengjast sjálfkrafa um eitt ár í senn í stað tveggja ára áður. Uppsagnarfrestur er hinn sami og áður, þ.e. sex mánuðir.
    Samningarnir voru undirritaðir í júlí 2003 og telur nefndin að rétt hefði verið að leggja þá fyrir Alþingi í upphafi haustþings.
    Ágúst Ólafur Ágústsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 16. mars 2004.



Sólveig Pétursdóttir,


form., frsm.


Guðmundur Árni Stefánsson.


Jónína Bjartmarz.



Drífa Hjartardóttir.


Össur Skarphéðinsson.


Steingrímur J. Sigfússon.



Einar K. Guðfinnsson.


Magnús Stefánsson.