Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 564. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1604  —  564. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Halldórsdóttur og Sigríði Auði Arnardóttur frá umhverfisráðuneyti, Sigbjörn Gunnarsson frá Skútustaðahreppi, Ólínu Arnkelsdóttur frá Aðaldælahreppi, Jóhann G. Reynisson frá Þingeyjarsveit, Snorra Baldursson og Helga Torfason frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Árna Bragason frá Umhverfisstofnun og Náttúrurannsóknastöðinni við Mývatn, Davíð Egilson frá Umhverfisstofnun og Gísla Má Gíslason prófessor. Frumvarpið var sent til umsagnar og bárust svör frá Landgræðslu ríkisins, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Náttúrurannsóknastöðinni við Mývatn, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Landsvirkjun, Orkustofnun, Líffræðistofnun Háskólans, Eyþingi, Veiðimálastofnun, Veiðimálastjóra, Bændasamtökum Íslands, Laxárfélaginu, Kísiliðjunni við Mývatn, Landssambandi veiðifélaga, Þingeyjarsveit, Landvernd, Náttúrufræðistofnun Íslands, Skútustaðahreppi, Náttúrustofu Norðausturlands, Húsavíkurbæ, Veiðifélagi Laxár og Krákár, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, SUNN,
Halldóri Valdimarssyni, Hótel Reynihlíð og Stangaveiðifélaginu Flúðum.
    Frumvarpið byggist í meginatriðum á frumvarpsdrögum sem ráðherraskipuð nefnd samdi og skilaði ráðherra snemma árs 2002. Frumvarpið felur í sér að verndun Mývatns og Laxár verði áfram bundin í sérlög en þó með þeim hætti að ákvæði þeirra nái einkum til verndunar vatnsins og árinnar. Frá því að gildandi lög voru sett hefur lagaumhverfi á sviði náttúruverndar og umhverfismála breyst mikið, m.a. með setningu skipulags- og byggingarlaga, laga um mat á umhverfisáhrifum og náttúruverndarlaga. Meginreglan er sú að um verndun og friðlýsingu svæða fari samkvæmt náttúruverndarlögum, nr. 44/1999, þar sem er að finna ítarleg ákvæði um friðlýsingu náttúruminja. Í frumvarpinu eru m.a. ákvæði um verndun vatnasviðs Mývatns og Laxár, umsjón verndarsvæðisins og gerð verndaráætlunar auk ákvæða um Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn.
    Frá því að frumvarpið var lagt fram á Alþingi hafa verið miklar deilur um ákvæði til bráðabirgða III. 2. apríl sl. barst formanni nefndarinnar hins vegar bréf undirritað af forstjóra Landsvirkjunar og formanni stjórnar Landeigendafélags Laxár og Mývatns. Í bréfinu kom fram sameiginleg ósk þeirra um að ákvæði til bráðabirgða III yrði fellt brott úr frumvarpinu. Telur nefndin rétt að verða við þessari ósk og leggur til að ákvæði til bráðabirgða III verði fellt brott. Nefndin bindur vonir við að farsæl niðurstaða verði á þessu máli.
    Í frumvarpinu er lagt til að gerð verði verndaráætlun sem nái til Skútustaðahrepps, auk Laxár með eyjum, hólmum og kvíslum, að ósi árinnar við Skjálfandaflóa ásamt 200 m breiðum bakka meðfram Laxá báðum megin. Þetta er sama svæði og fellur undir gildissvið gildandi laga og er verndaráætluninni ætlað að vera stefnumótandi fyrir náttúru- og umhverfisvernd á svæðinu. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði I skal gerð hennar lokið fyrir 1. janúar 2006. Við umfjöllun málsins kom fram að vinna við verndaráætlunina er hafin.
    Þá er lagt til með ákvæði til bráðabirgða II að Umhverfisstofnun skuli þegar hefjast handa við undirbúning að friðlýsingu landsvæða sem ekki falli undir 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins en mikilvægt sé að vernda vegna mikilvægis þeirra. Jafnframt er lagt til í 2. mgr. ákvæðisins að umhverfisráðherra skuli við gildistöku laganna tilkynna landeigendum og öðrum tilgreindum aðilum hvaða landsvæði áformað er að friðlýsa. Nefndinni var greint frá því að listi yfir þessi svæði getur legið fyrir innan tveggja til þriggja mánaða. Við umfjöllun málsins var lýst áhyggjum af því að lagt er til að dregið verði úr vernd ákveðinna svæða og því millibilsástandi sem skapast frá því að frumvarpið verður að lögum þar til friðlýsingu samkvæmt ákvæðinu er lokið en gert er ráð fyrir að þau svæði sem friða á fari í friðlýsingarferli samkvæmt náttúruverndarlögum. Fram kom hjá fulltrúum sveitarstjórna á svæðinu að gert væri ráð fyrir að þau svæði sem ætti að friða færu í friðlýsingarferli lögum samkvæmt. Einnig kom fram að ef fara ætti í framkvæmdir á svæðinu sem ekki liggja fyrir upplýsingar um í skipulagi færi um það samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og eftir atvikum lögum um mat á umhverfisáhrifum. Nefndin leggur áherslu á að ekki verði farið í framkvæmdir á þeim svæðum sem listi skv. 2. mgr. ákvæði til bráðabirgða II nær til nema í fullu samráði við umhverfisráðuneytið. Þá leggur nefndin til að gildistöku frumvarpsins verði frestað til 1. september nk. svo að nægilegt svigrúm gefist til að vinna lista samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II. Að síðustu leggur nefndin áherslu á að við birtingu laganna verði kort í fylgiskjölum I og II prentuð í lit og með fleiri örnefnum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi


BREYTINGUM:

     1.      Við 11. gr. 1. málsl. orðist svo: Lög þessi öðlast gildi 1. október 2004.
     2.      Ákvæði til bráðabirgða III falli brott.

    Kolbrún Halldórsdóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara. Fyrirvarinn lýtur að lagaskilunum og nauðsyn þess að verndaráætlun fyrir svæðið sem ekki fellur undir ákvæði 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins sé tilbúin við gildistöku laganna. Einnig telur hún mikilvægt að umhverfisráðherra beri að hafa samráð við Umhverfisstofnun varðandi framkvæmdir á þeim svæðum áður en friðlýsingu er lokið. Áskilur hún sér rétt til að flytja breytingartillögu varðandi þessi atriði við umfjöllun málsins.
    Sigurjón Þórðarson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 27. apríl 2004.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Rannveig Guðmundsdóttir.


Dagný Jónsdóttir.



Kolbrún Halldórsdóttir,


með fyrirvara.


Guðlaugur Þór Þórðarson.


Mörður Árnason.



Brynja Magnúsdóttir.


Guðjón Hjörleifsson.


Guðmundur Hallvarðsson.