Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 872. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1654  —  872. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á einkamálalögum, nr. 91/1991, og þjóðlendulögum, nr. 58/1998 (gjafsókn).

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Stefán Eiríksson frá dómsmálaráðuneyti, Kristján Andra Stefánsson frá forsætisráðuneyti, Þorleif Pálsson, Ásgeir Thoroddsen og Helga I. Jónsson frá gjafsóknarnefnd og Sif Konráðsdóttur frá Lögmannafélagi Íslands. Umsagnir bárust um málið frá réttarfarsnefnd, óbyggðanefnd, dómstólaráði, Lögmannafélagi Íslands, umboðsmanni barna, embætti ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara.
    Með frumvarpinu er lagt til að felld verði niður heimild 1. mgr. 126. gr. einkamálalaga, nr. 91/1991, til að veita gjafsókn þegar úrlausn máls hefur verulega almenna þýðingu eða varðar verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda. Eftir sem áður verður í lögunum að finna heimild til að veita einstaklingi gjafsókn ef fjárhag hans er þannig háttað að kostnaður við gæslu hagsmuna hans í dómsmáli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða, enda sé nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar og eðlilegt megi teljast að öðru leyti að málsóknin sé kostuð af almannafé. Þá er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að dómsmálaráðherra kveði nánar á um starfshætti gjafsóknarnefndar og skilyrði gjafsóknar í reglugerð. Í frumvarpinu er einnig lagt til að gjafsóknarákvæði bætist við þjóðlendulög, nr. 58/1998, sem gildi hér eftir sem sérákvæði um möguleika þeirra sem aðild eiga að þjóðlendumálum á gjafsókn eða gjafvörn fyrir dómstólum.
    Við meðferð málsins í nefndinni kom í ljós að umsóknum um gjafsókn hefur fjölgað mjög undanfarin ár og voru þær fleiri en 500 talsins árið 2003. Til samanburðar má nefna að árið 1998 bárust gjafsóknarnefnd 315 umsóknir. Ekki er gert ráð fyrir að gjafsóknarmálum fækki verulega við þá breytingu sem lögð er til í frumvarpinu en hún kann að stemma stigu við þeirri aukningu sem verið hefur undanfarin ár.
    Nefndin skoðaði sérstaklega áhrif breytinganna sem frumvarpið gerir ráð fyrir varðandi möguleika einstaklinga til að fá gjafsókn í sifjamálum, og þá einkum forsjármálum. Samkvæmt upplýsingum frá gjafsóknarnefnd hefur gjafsókn í forsjármálum í yfirgnæfandi hluta tilvika verið veitt á grundvelli a-liðar 1. mgr. 126. gr. gildandi einkamálalaga, en í honum er að finna reglu sambærilega þeirri sem lagt er til að lögfest verði í frumvarpinu, þ.e. að gjafsókn verði veitt á grundvelli fjárhagsstöðu.
    Meiri hlutinn telur heppilegra að í stað þess gjafsóknarákvæðis sem lagt er til að bætist við þjóðlendulög verði tekið upp á ný hliðstætt ákvæði og áður gilti um gjafsókn fyrir óbyggðanefnd og var sérstaklega sniðið að þörfum og hagsmunum þeirra sem aðild eiga að



Prentað upp á ný.

þjóðlendumálum. Tillaga meiri hlutans gerir ráð fyrir að í þjóðlendulögum verði heimild til veitingar gjafsóknar á grundvelli verulegrar almennrar þýðingar máls eða þess að úrlausn máls varði verulega miklu um hagsmuni umsækjanda og kostnaður af gæslu hagsmuna hans í málinu hafi fyrirsjáanlega mjög veruleg áhrif á efnahag hans. Slíkt ákvæði var á sínum tíma tekið í þjóðlendulög að frumkvæði allsherjarnefndar en breytt með lögum nr. 65/2000 þegar önnur ákvörðun var tekin um greiðslu kostnaðar við hagsmunagæslu fyrir óbyggðanefnd.
    Meiri hlutinn leggur jafnframt til að við lög um meðferð einkamála verði bætt bráðabirgðaákvæði sem tryggi að þeir sem hefur verið veitt gjafsókn fyrir héraðsdómi samkvæmt núgildandi b-lið 126. gr. laganna fái áfram gjafsókn fyrir Hæstarétti gangi málið þangað.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi

BREYTINGUM:


     1.      Á eftir 2. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      Við lögin bætist svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða:
                      Nú hefur aðila verið veitt gjafsókn fyrir héraðsdómi á grundvelli b-liðar 126. gr. laga nr. 91/1991 fyrir gildistöku laga þessara og skal þá heimilt að veita honum gjafsókn vegna sama máls fyrir Hæstarétti, gangi það þangað.
     2.      3. gr. orðist svo:
                  Við 19. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Heimilt er að veita aðila gjafsókn í samræmi við reglur XX. kafla laga um meðferð einkamála. Þrátt fyrir skilyrði 126. gr. laga um meðferð einkamála er heimilt að veita aðila gjafsókn þegar úrlausn máls hefur:
                  a.      verulega almenna þýðingu eða
                  b.      varðar verulega miklu um hagsmuni umsækjanda og kostnaður af gæslu hagsmuna hans í málinu hefur fyrirsjáanlega mjög veruleg áhrif á efnahag hans.

    Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og stendur ekki að áliti þessu.

Alþingi, 12. maí 2004.



Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Þórarinn E. Sveinsson.



Guðrún Inga Ingólfsdóttir.


Sigurður Kári Kristjánsson.