Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 983. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1689  —  983. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um Íslandsskýrslu GRECO-hóps Evrópuráðsins gegn spillingu.

     1.      Hver voru meginatriði í Íslandsskýrslu GRECO-hóps Evrópuráðsins frá 2001 gegn spillingu?
    GRECO-hópur Evrópuráðsins (Group of States against corruption) samþykkti skýrslu um Ísland á 6. fundi sínum í Strassborg 10.–14. september 2001. Eftirlitsnefnd GRECO heimsækir öll aðildarríki Evrópuráðsins og kannar hugsanlega spillingu í aðildarríkjunum. Skýrsla GRECO-hópsins er byggð á heimsókn fulltrúa hópsins til Íslands og viðræðum við fjölmarga aðila 2.–4. maí 2001. Í fyrstu matsskýrslu GRECO-hópsins frá október 2003 er niðurstaðan sú að Ísland hafi uppfyllt eða væri að uppfylla tilmæli hópsins frá 2001.
    Meginniðurstaða GRECO var sú að Ísland væri eitt af þeim Evrópuríkjum þar sem minnst bæri á spillingu. Í samanburði við önnur aðildarríki Evrópuráðsins væri Ísland eitt óspilltasta ríki Evrópu. Þótt engin ein sérhæfð stofnun fengist við aðgerðir gegn spillingu af hvaða tagi sem nefndist þá lýsti GRECO-hópurinn yfir sérstakri ánægju sinni með hve margir hæfir aðilar stuðluðu að því að koma í veg fyrir og koma upp um spillingu. Þar er sérstaklega vísað til umboðsmanns Alþingis, Samkeppnisstofnunar, Ríkisendurskoðunar og ríkislögreglustjóra, svo og hagsmunasamtaka eins og Samtaka atvinnulífsins og Verslunarráðs. Mikilvægi fjölmiðla í baráttu gegn spillingu er einnig áréttað.
    Hópurinn bendir á að lág tíðni spillingar bendi til þess að eftirlitskerfið starfi eins og því sé ætlað. Sérstaklega er þó lagt til að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra verið efld og þar með gert kleift að taka frekara frumkvæði í baráttu gegn spillingu. Enda þótt spilling sé ekki raunverulegt vandamál í dag telur GRECO-hópurinn að íslensk stjórnvöld séu meðvituð um nauðsyn fyrirbyggjandi aðgerða til að koma í veg fyrir spillingu í framtíðinni og til að forðast sinnuleysi. Það verði best gert með eflingu á starfsemi fyrrgreindra stofnana þannig að þær verði sem best í stakk búnar til að fást við aðgerðir gegn spillingu.
     2.      Hefur Ísland verið gagnrýnt á vettvangi alþjóðasamtaka Transparency International fyrir að ekki séu lög hér á landi um fjármál stjórnmálaflokka eða að engar reglur gildi sem tryggi gagnsæi í fjármálum þeirra? Ef svo er, hvernig hafa stjórnvöld brugðist við?
    Samtökin Transparency International hafa unnið gegn spillingu á alþjóðavettvangi í rúm tíu ár. Markmið þeirra er að ná langtímaárangri í baráttunni gegn spillingu og samtökin einbeita sér fyrst og fremst að vitundarvakningu, eftirlitsstarfi, forvörnum og þróun meginreglna. Á vettvangi Transparency International hefur verið lögð áhersla á mikilvægi þess að löggjöf sé til staðar til að koma í veg fyrir spillingu, m.a. um gagnsæi í fjárreiðum stjórnmálaflokka og eftirfylgni með lögunum. Höfuðstöðvar samtakanna eru í Berlín en þau starfa í um 90 ríkjum.
    Transparency International hafa hvorki unnið sérstaka skýrslu um Ísland né gefið út yfirlýsingu með beinni tilvísun til landsins. Samtökin leggja mikla áherslu á aðgengi að upplýsingum og halda úti öflugri heimasíðu (www.transparency.org) þar sem lesa má nánast alla útgáfu samtakanna frá upphafi. Allar tilvísanir Transparency International til Íslands vísa til upptalningar á þeim ríkjum þar sem minnsta spillingu er að finna.
    Á síðustu árum hefur Ísland mælst meðal fimm efstu ríkjanna á lista samtakanna, sem telur um 130 ríki, um viðhorf til spillingar (Corruption Perception Index). Árið 2003 mældist Ísland í öðru sæti, á eftir Finnlandi, með 9,6 stig af 10 mögulegum. Að öðru leyti hafa samtökin ekki fjallað sérstaklega um Ísland.
    Á vegum Transparency International var haldinn fundur um pólitíska spillingu í Aþenu í september 2002 með fulltrúum ríkja Vestur-Evrópu. Á fundinum kom fram almenn gagnrýni á þau ríki í hópnum sem hafa ekki sett reglur um fjármál stjórnmálaflokka og gagnsæi í starfi þeirra. Á fundinum var samþykkt að vinna greinargerð um lög og reglugerðir um gagnsæja fjármögnun stjórnmálaflokka í Vestur-Evrópu en af útgáfu skýrslunnar hefur enn ekki orðið.