Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 879. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1721  —  879. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta landbúnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Atla Má Ingólfsson, Guðmund B. Helgason og Hákon Sigurgrímsson frá landbúnaðarráðuneyti, Jón Magnússon frá fjármálaráðuneyti, Jón Guðmundsson, Sigríði Dalmannsdóttur og Þórdísi Önnu Kristjánsdóttur, fulltrúa starfsmanna Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Ásdísi Helgu Bjarnadóttur, fulltrúa starfsmanna Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Önnu Guðrúnu Þórhallsdóttur og Björn Þorsteinsson, prófessora við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, Sigurð Þór Guðmundsson, Gústav Magnús Ásbjörnsson og Kristnýju Pétursdóttur, fulltrúa nemenda Hvanneyri, Svein Aðalsteinsson og Bjarna Finnsson frá skólanefnd Garðyrkjuskóla ríkisins, Gunnþór K. Guðfinnsson, fulltrúa starfsmanna í skólanefnd Garðyrkjuskóla ríkisins, Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Gísla Tryggvason frá Bandalagi háskólamanna, Pétur Bjarnason frá Hólamannafélaginu, Skúla Skúlason, skólastjóra á Hólum, Gísla Gunnarsson frá Sveitarfélaginu Skagafirði, Þorstein Tómasson og Áslaugu Helgadóttur frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Magnús B. Jónsson, rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri.
    Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Borgarfjarðarsveit, Veiðimálastofnun, rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, starfsmönnum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Landgræðslu ríkisins, Landssambandi fiskeldisstöðva, Sveitarfélaginu Skagafirði, Kennaraháskóla Íslands, Landssambandi kúabænda, Bændasamtökum Íslands, Félagi íslenskra landslagsarkitekta, Önnu Guðrúnu Þórhallsdóttur og Birni Þorsteinssyni, prófessorum við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, Háskólanum á Akureyri, skólameistara Garðyrkjuskóla ríkisins, tækninefnd Vísinda- og tækniráðs, menntamálanefnd Alþingis, nemendafélagi Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, háskólaráði Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, rektor Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Búnaðar- og garðyrkjukennarafélagi Íslands.
    Málið var unnið samhliða frumvarpi til laga um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965, með síðari breytingum (878. mál).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skipulagi búnaðarfræðslu í landinu, sér í lagi breytingar á æðstu stjórn Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og er nafni skólans breytt í Landbúnaðarháskóla Íslands.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem leiðir af tillögu nefndarinnar um að Garðyrkjuskólinn verði sameinaður hinum nýja Landbúnaðarháskóla Íslands.
    Lagt er til að fjölgað verði um tvo fulltrúa í háskólaráði hinnar nýju stofnunar, þannig að starfsmenn tilnefni einn og nemendur einn, en þá tilhögun telur meiri hlutinn koma hinni nýju stofnun vel og auka samstöðu og samvinnu allra þessara fulltrúa. Meiri hlutinn leggur auk þess til þá breytingu á frumvarpinu að háskólaráð verði skipað til tveggja ára í senn í stað fjögurra en þessi tilhögun og breytingin á tilnefningum fulltrúa í stjórn eru í samræmi við lög um háskóla, nr. 136/1997. Þá er einnig lagt til að háskólaráð verði skipað frá 1. júlí 2004 en að landbúnaðarráðherra skipi formann háskólaráðs tímabundið og skal hann ásamt háskólaráði undirbúa framkvæmd þessara breytinga. Ráðherra skipi rektor frá 1. ágúst 2004 að fenginni umsögn háskólaráðs.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að yfirstjórn Landbúnaðarháskóla Íslands verði áfram á Hvanneyri þótt ekki sé kveðið á um staðsetningu skólans í frumvarpinu, enda skólinn með starfsstöðvar á nokkrum stöðum á landinu. Þá telur meiri hlutinn eðlilegt að við mótun skipulags Landbúnaðarháskóla Íslands verði starfseminni deildaskipt.
    Leggur meiri hlutinn áherslu á að með breytingunum er stigið fyrsta skrefið í átt að enn frekari sameiningu eða víðtækara samstarfi þeirra skóla og stofnana sem starfa á sviði landbúnaðar við kennslu, rannsóknastörf og leiðbeiningarþjónustu. Telur meiri hlutinn að sameiningin efli landbúnaðinn í heild og leggur áherslu á að áfram verði unnið að hugmyndum um frekari sameiningu.
    Með frumvarpinu er ekki verið að breyta stöðu Hólaskóla en meiri hlutinn telur ástæðu til að farið verði sérstaklega yfir stöðu og málefni hans eins og ábendingar komu fram um á fundum nefndarinnar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    

Alþingi, 17. maí 2004.



Drífa Hjartardóttir,


form., frsm.


Magnús Stefánsson.


Kjartan Ólafsson.



Guðmundur Hallvarðsson.


Þórarinn E. Sveinsson.