Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 997. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1761  —  997. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta landbúnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund B. Helgason, Atla Má Ingólfsson og Ólaf Friðriksson frá landbúnaðarráðuneyti, Snorra Sigurðsson og Þórólf Sveinsson frá Landssamtökum kúabænda, Baldur Helga Benjamínsson og Harald Benediktsson frá Bændasamtökum Íslands, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Sigríði Andersen frá Verslunarráði Íslands, Guðmund Sigurðsson frá Samkeppnisstofnun, Pálma Vilhjálmsson frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Stefán Úlfarsson frá Alþýðusambandi Íslands, Elínbjörgu Jónsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Jónas Bjarnason frá Hagþjónustu landbúnaðarins.
    Með frumvarpinu er ætlunin að lögfesta ákvæði þess efnis að samráð, samruni og verðtilfærsla í mjólkuriðnaði sé undanskilið gildissviði samkeppnislaga. Ákveðin réttaróvissa hefur verið ríkjandi varðandi það og er frumvarpinu ætlað að kveða skýrt á um að ákvæði búvörulaga gangi framar almennum ákvæðum samkeppnislaga.
    Umfjöllun nefndarinnar um frumvarpið fór fram samhliða umfjöllun um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum (1000. mál), sem varðar lögfestingu á ákvæðum samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar.
    Mjólkuriðnaðurinn nýtur ákveðinnar sérstöðu, sérstaklega varðandi ferskvöru, en upplýst var fyrir nefndinni að samkeppni á innanlandsmarkaði er ekki eins virk þegar um þessa vöru er að ræða. Þá var auk þess upplýst að með hliðsjón af alþjóðlegum skuldbindingum ríkisins um lækkun tolla og styrkja til landbúnaðar muni samkeppni á innanlandsmarkaði harðna í náinni framtíð vegna innfluttrar landbúnaðarvöru frá nágrannalöndum sem einnig er niðurgreidd. Innlendur mjólkuriðnaður þarf því að fá tækifæri til uppstokkunar og hagræðingar og er því nauðsynlegt að heimila sameiningu afurðastöðva og að þeim verði einnig heimilt að gera með sér samkomulag um verkaskiptingu. Í frumvarpinu er þó gert ráð fyrir að slíka samninga þurfi að leggja fyrir verðlagsnefnd til upplýsingar.
    Verðlagsnefnd er skipuð sjö fulltrúum, einum fulltrúa frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, einum frá Alþýðusambandi Íslands, einum frá stjórn Bændasamtaka Íslands, einum frá stjórnum búgreinasamtaka, tveimur frá samtökum afurðastöðva og landbúnaðarráðherra tilnefnir formann.
    Meiri hlutinn telur að frumvarpið eyði þeirri réttaróvissu sem uppi var um stöðu búvörulaga gagnvart samkeppnislögum. Meiri hlutinn telur einnig, með hliðsjón af skipun verðlagsnefndar og því eftirlitshlutverki sem henni er ætlað samkvæmt lögum, að séð sé fyrir því að hagsmunir bænda, framleiðenda, neytenda og stjórnvalda verði tryggðir á hverjum tíma.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Jón Bjarnason er samþykkur áliti þessu en skrifar undir með fyrirvara.
    Guðjón A. Kristjánsson sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er með fyrirvara við álitið.

Alþingi, 22. maí 2004.



Drífa Hjartardóttir,


form., frsm.


Magnús Stefánsson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Jón Bjarnason,


með fyrirvara.


Guðmundur Hallvarðsson.


Þórarinn E. Sveinsson.