Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 205. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Nr. 24/130.

Þskj. 1823  —  205. mál.


Þingsályktun

um eflingu umferðaröryggis á þjóðvegum.


    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að skipa nefnd til að meta og gera tillögur um hvernig bæta megi umferðaröryggi á þjóðvegum.
    Verkefni nefndarinnar verði að meta og gera tillögur um hvernig bæta megi umferðaröryggi þegar ökutæki mætast við einbreiðar brýr, t.d. með breytingum á umferðarlögum, merkingum um forgang umferðar eða á annan hátt. Nefndin meti hvort bæta megi gerð umferðarmerkja, t.d. svo þau sjáist frá hlið. Þá geri nefndin tillögur um hvernig merkja megi ökumönnum til varnaðar hættulega staði á þjóðvegum, svokallaða svarta bletti. Nefndin geri tillögur um hvernig bæta megi fræðslu fyrir erlenda ferðamenn um akstur á íslenskum vegum og hvernig megi auka öryggi þeirra með bættum vegmerkingum á erlendum tungumálum. Þá meti nefndin og leggi fram tillögur til úrbóta á umferðarlöggæslu og hverjum þeim þætti umferðaröryggismála sem hún telur þörf á. Þar sem það á við taki nefndin mið af umferðaröryggisáætlun 2002–2012 og því hvernig þessum málum er háttað í nágrannalöndum okkar þar sem svipaðar aðstæður eru.
    Nefndin skili tillögum sínum fyrir 1. mars 2005.

Samþykkt á Alþingi 27. maí 2004.