Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1011. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1891  —  1011. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á útvarpslögum nr. 53/2000, samkeppnislögum nr. 8/1993 o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. útvarpslaga nr. 53/2000:
     a.      2. mgr. orðast svo:
             Menntamálaráðherra skipar þrjá menn í útvarpsréttarnefnd til fjögurra ára og jafnmarga til vara. Tveir skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu hæstaréttar en einn skipar ráðherra án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og skal varamaður formanns jafnframt vera varaformaður nefndarinnar. Nefndarmenn og varamenn þeirra skulu uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara. Nefndinni er heimilt að kalla sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða aðila eftir því sem hún telur þörf á.
     b.      Á eftir 3. mgr. koma fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
             Útgáfa útvarpsleyfis er háð eftirfarandi skilyrðum:
        a.    Óheimilt er að veita leyfi til útvarps til fyrirtækis sem hefur að meginmarkmiði rekstur sem er óskyldur fjölmiðlarekstri. Einnig er óheimilt að veita útvarpsleyfi fyrirtæki sem er að meira en 10% í eigu fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu í markaðsráðandi stöðu á einhverju sviði viðskipta. Þetta á þó ekki við ef ársvelta markaðsráðandi fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu á síðastliðnu reikningsári eða eftir atvikum síðastliðnum 12 mánuðum er undir tveimur milljörðum kr. Telja skal með veltu móður- og dótturfyrirtækja fyrirtækja innan sömu fyrirtækjasamstæðu og fyrirtækja sem markaðsráðandi fyrirtækið eða fyrirtækjasamstæðan hefur bein eða óbein yfirráð yfir. Þá er óheimilt að veita fyrirtæki útvarpsleyfi ef annað fyrirtæki á meira en 35% eignarhlut í því. Sömuleiðis er óheimilt að veita fyrirtæki útvarpsleyfi ef fyrirtæki í sömu fyrirtækjasamstæðu eiga samanlagt meira en 35% eignarhlut í því. Jafnframt er óheimilt að veita fyrirtæki útvarpsleyfi ef það eða fyrirtæki í sömu fyrirtækjasamstæðu er útgefandi dagblaðs, á hlut í útgefanda dagblaðs eða það er að hluta eða öllu leyti í eigu slíks fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu.
        b.    Ákvæði a-liðar á einnig við ef á milli fyrirtækja eru önnur náin tengsl en samstæðutengsl sem leitt geta til yfirráða.
             Með umsóknum um útvarpsleyfi skulu fylgja upplýsingar sem gera útvarpsréttarnefnd kleift að meta hvort skilyrðum 4. mgr. sé fullnægt og útvarpsréttarnefnd telur nauðsynlegar. Við mat á því hvort fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæða sé í markaðsráðandi stöðu skal útvarpsréttarnefnd leita álits Samkeppnisstofnunar.
             Skylt er þeim aðilum sem útvarpsleyfi hafa að tilkynna útvarpsréttarnefnd um allar breytingar sem verða á eignarhaldi eða öðrum skilyrðum sem kveðið er á um í 4. mgr. Útvarpsréttarnefnd getur afturkallað útvarpsleyfi ef breytingar verða á eignarhaldi eða öðrum skilyrðum þannig að í bága fari við ákvæði 4. mgr. Þó skal veita leyfishafa frest í allt að 120 daga til að koma eignarhaldi eða öðrum skilyrðum í það horf að samrýmist ákvæðunum. Hafi eignarhaldi ekki verið komið í það horf að samrýmist ákvæðum laganna innan framangreindra tímamarka skal leyfishafa vera heimilt að krefjast úrskurðar viðskiptaráðherra um sölu viðkomandi eignarhlutar. Viðskiptaráðherra skal þá með úrskurði skylda hlutaðeigandi til að selja þann eignarhlut sem ekki er samrýmanlegur ákvæðum 4. mgr. innan mánaðar. Hafi sala þá ekki farið fram skal afhenda viðskiptaráðherra hlutabréfin eða skilríki fyrir eignarhlutnum ásamt undirrituðu söluumboði. Hann skal þá fela óháðu verðbréfafyrirtæki að selja þann eignarhlut sem um ræðir til aðila sem uppfyllir skilyrði laganna.
             Útvarpsréttarnefnd getur vikið frá skilyrðum 4. mgr. ef um er að ræða leyfi til svæðisbundins hljóðvarps.

2. gr.

    Við 1. mgr. 8. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 bætast sex nýir málsliðir, svohljóðandi: Samkeppnisstofnun skal láta útvarpsréttarnefnd í té álit skv. 5. mgr. 6. gr. útvarpslaga. Telji Samkeppnisstofnun að fyrirtæki kunni að vera í markaðsráðandi stöðu skal hún birta því greinargerð um málið sem nefnist frumathugun. Skal þar lýst helstu staðreyndum máls, meginskýringum Samkeppnisstofnunar og helstu niðurstöðum. Aðila skal veittur hæfilegur frestur til andmæla og skriflegra athugasemda og til að koma að gögnum. Að öðru leyti gilda ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um álitsgjöf Samkeppnisstofnunar. Niðurstaða Samkeppnisstofnunar sætir kæru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála skv. 9. gr. laga þessara.

3. gr.

    Lög nr. 48/2004, um breytingu á útvarpslögum nr. 53/2000 og samkeppnislögum nr. 8/1993, falla brott.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2007. Þó skal a-liður 1. gr. og 3. gr. þeirra þegar öðlast gildi.
    Við gildistöku laganna skulu þeir, sem lögin taka til, hafa lagað sig að þeim kröfum, sem lögin gera, þar á meðal um eignarhald.
    Útvarpsréttarnefnd skal vera heimilt að afturkalla útvarpsleyfi þeirra, sem hún telur ekki uppfylla skilyrði 1. gr. laganna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er að undanskildum tveimur veigamiklum breytingum samhljóða öðru frumvarpi sem samþykkt var á Alþingi 24. maí sl. og varð að lögum nr. 48/2004, um breytingu á útvarpslögum nr. 53/2000 og samkeppnislögum nr. 8/1993, eftir að forseti Íslands hafði synjað því staðfestingar. Breytingar þessar snúa annars vegar að þeim skilyrðum, sem sett eru, fyrir að geta fengið útvarpsleyfi og haldið því og hins vegar að gildistöku frumvarpsins, verði það að lögum.
    Fyrri breytingin er fólgin í tillögu um að hámark eignarhlutdeildar markaðsráðandi fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu, sem frumvarpið tekur til, í fyrirtæki í útvarpsrekstri verði hækkað úr 5 í 10 af hundraði. Með þessu móti er enn frekar en í gildandi lögum komið til móts við sjónarmið um að gæta þurfi ákveðins meðalhófs við setningu takmarkana af þessu tagi, jafnvel þótt í engu hafi dregið úr gildi þeirra sjónarmiða, sem leiða til þess, að þær þurfi að setja.
    Síðari breytingin felst í því að lagt er til að frumvarpið öðlist ekki gildi fyrr en 1. september 2007. Á þennan hátt er útvarpsleyfishöfum og öðrum sem lögin snerta gefinn enn rýmri tími til að laga sig að þeim skilyrðum sem lögin setja með því að gildistaka frumvarpsins er færð fram um rúmlega þrjú ár frá gildandi lögum. Til að fyllsta jafnræðis sé gætt meðal fyrirtækja í þessum rekstri er á móti gert ráð fyrir að þau lagi sig öll að þessum kröfum innan þessa sama tímamarks, en útvarpsréttarnefnd verði að öðrum kosti heimilt að afturkalla leyfi þeirra. Með þetta rúmum aðlögunartíma gerir frumvarpið því ekki ráð fyrir sams konar heimild og er í bráðabirgðaákvæði við gildandi lög til að framlengja tímabundið leyfi þeirra, sem ekki uppfylla skilyrðin, sem lögin setja, um allt að tvö ár, enda á það ekki við eftir þessa breytingu.
    Í samræmi við þessa síðarnefndu breytingu er loks lagt til að áðurnefnd lög nr. 48/2004 falli þegar úr gildi. Af því leiðir að ekki gerist þörf á að bera þau sérstaklega undir þjóðaratkvæði, enda gefst kjósendum kostur á að lýsa viðhorfi sínu til löggjafar af þessu tagi og þess meiri hluta, sem að henni stendur, í almennum kosningum áður en frumvarp þetta öðlast að öðru leyti gildi haustið 2007, verði það að lögum. Áður en til þess kemur hefur þá nýkjörið þing öll tækifæri til að fjalla um þau á ný, breyta þeim og bæta eða jafnvel fella brott.
    Um almennar athugasemdir vísast að öðru leyti til almennra athugasemda við frumvarp það, er varð að lögum nr. 48/2004. Sama á við um athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins eftir því sem við á, en að öðru leyti til þeirra skýringa sem fram komu í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar um það sama frumvarp og að hluta í breytingartillögu meiri hlutans við þriðju umræðu um málið.