Þriðja kynslóð farsíma

Þriðjudaginn 25. janúar 2005, kl. 16:24:53 (3647)


131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[16:24]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að taka þátt í hótfyndni hæstv. ráðherra þar sem hann víkur sér undan því að svara efnislegum athugasemdum með tilvísunum í ástandið í Samfylkingunni, sem er upp til hópa mjög gott. Ég virði honum það til vorkunnar, enda uppnám í ríkisstjórninni vegna margra hluta, og leiði þann útúrsnúning hjá mér.

Hann talaði um að sá sem hér stendur hefði haft uppi stór orð um úthlutunarkerfið sem hér er stuðst við, að ég hefði kallað það ógagnsætt bitlingakerfi. Það er nefnilega einmitt kjarni málsins. Ég hafði stór orð uppi um mögulegar afleiðingar þeirrar aðferðar sem hér er lögð til við úthlutun þessara takmörkuðu gæða, við úthlutun leyfisins til að reka þriðju kynslóð farsíma. Ég stend við þau stóru orð, af því að ég er eindreginn talsmaður þess að leikreglur samfélagsins séu sem allra gagnsæjastar og þannig að þær séu engum vafa undirorpnar. Það er kjarni málsins. Ég ítrekaði líka að ég væri þess fullviss að þeim hæstv. ráðherra sem nú situr í samgönguráðuneyti gengi ekkert slíkt til.

Þær ógagnsæju reglur sem hér eru notaðar bjóða upp á það að hægt sé að vefengja niðurstöðuna við úthlutun leyfisins til að reka þriðju kynslóð farsíma. Því lagði ég til og fór fram á það að fært yrði inn sérákvæði um úthlutun sem fæli það í sér að væri um að ræða tvo jafngilda aðila sem byðu í reksturinn, leyfi til að reka þriðju kynslóð farsíma, færi fram uppboð á milli þeirra. Sú leið held ég að tryggi að um gagnsæi verði að ræða og ekki sé hægt að bera stjórnvöldum hvers tíma það á brýn að þau séu með einhverja pólitíska bitlingastarfsemi. Pólitísk bitlingastarfsemi er spilling, það er nú bara þannig. Ég er að mæla þessi varnaðarorð, virðulegi forseti, til að koma í veg fyrir slík brigslyrði.