Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 25. janúar 2005, kl. 17:54:50 (3665)


131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

32. mál
[17:54]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum aftur frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem hefur verið flutt áður og eins og þá vil ég leggja áherslu á að mikilvægt er að skattkerfið sé einfalt, skilvirkt og skiljanlegt vegna þess að það vill oft brenna við að þegar lögin eru of félagsleg, taka of mikið tillit til margra þátta, þá verða þau flókin og gefa möguleika á undanskotum og svindli og vernda ekki þá sem þau eiga að vernda vegna þess að þeir þekkja ekki til réttinda sinna. Þetta er allt of algengt og kannski er íslenska bótakerfið gott dæmi um það. Þess vegna er mikilvægt að halda skattkerfinu einföldu og hafa það hreint og klárt.

Hér er verið að ræða í sjálfu sér mjög gott mál og það má færa góð rök fyrir því að það sé rétt að taka tillit til sannanlegs ferðakostnaðar. En þá fara að koma spurningar um hvað sé sannanlegur ferðakostnaður. Um það þarf að setja reglur, það þarf að hafa eftirlit með því og fara í gegnum það hvort þetta sé rétt eða rangt reiknað o.s.frv. Það er dálítið undarlegt að ekki á að taka tillit til 9.990 kr. á mánuði heldur bara 10 þús. kr. sem gerir það að verkum að menn munu reyna að auka kostnaðinn svo hann fari upp fyrir mörkin sem eykur þá enn meira á eftirlitsþörfina með kerfinu. Slíkt kerfi er við lýði mjög víða og það er spurning hvort tekjur séu skattaðar sem hreinar tekjur eða hvort menn geti dregið alls konar kostnað frá. Vil ég benda á einn kostnað sem ég tel miklu mikilvægara að taka tillit til ef menn ætla að fara út á þessar brautir og það er leikskólakostnaður foreldra. Menn fara ekki að vinna frá börnum og skilja þau eftir heima. Þau verða að fá gæslu og sú gæsla kostar meira eða jafnmikið og það sem við erum að ræða um hér og ekki síður mikilvægt að það sé skattfrjálst ef menn ætla að fara út á þessar brautir.

Síðan má líka nefna heimilishjálp. Fólk sem fer frá þungu heimili til að vinna kemst ekki yfir alla þá vinnu, bæði vinnuna og svo heimilisstörfin. Þetta þekkja margar einstæðar mæður og einstæðir feður. Þá þarf kannski að ráða heimilishjálp og ég mundi segja að það væri kostnaður sem ætti ekki síður að taka tillit til. Og svona getum við haldið áfram aftur og aftur, hlífðarföt til dæmis, og áður en við vitum af erum við komin með óskaplega flókið kerfi sem býður upp á undanskot.

Hv. þingmaður gat um einkahlutafélögin og möguleika þeirra til að fá þennan kostnað greiddan. Við erum með embætti í landinu sem heitir skattrannsóknarstjóri og við erum með embætti sem setur reglur, þ.e. ríkisskattstjóri, og þeir eru einmitt alltaf að setja reglur um hvaða kostnað megi draga frá og hvaða ekki. Mér skilst meira að segja að þeir hafi skattlagt ferðakostnað þar sem fyrirtæki keyrðu starfsmenn til vinnu á morgnana. Það var litið á það sem skattskyld hlunnindi einmitt til þess að jafna aðstöðumun þeirra sem eru keyrðir þannig og hinna sem fara á einkabílum. Að lokum vil ég benda á að ef þetta yrði tekið upp er fjöldi manns í Reykjavík sem gæti þurft á þessu að halda eða félli undir þessa reglu því að vegalengdirnar eru orðnar umtalsverðar í bænum. Svo ef menn segjast skreppa heim í mat líka þá er þetta orðið dálítið mikið og verður kannski hvatning til þess, fyrir utan það hvernig menn ætla að tékka þetta af. Ég hef því miklar efasemdir við þessa tillögu.