Innanlandsmarkaður með losunarefni

Miðvikudaginn 26. janúar 2005, kl. 14:49:00 (3713)


131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Innanlandsmarkaður með losunarefni.

367. mál
[14:49]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Það er mikill misskilningur að ekki sé verið að gera neitt í þessum efnum í umhverfisráðuneytinu. Ég nefndi það hér fyrr í dag að verið er að vinna að því að fara yfir öll þessi mál í vetur og við eigum að skila skýrslu, eins og ég nefndi líka fyrr í dag, til Loftslagsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna þar sem við sýnum fram á að við munum standa við okkar hlut gagnvart Kyoto-bókuninni.

Auðvitað verða að þjóðir heimsins mjög uppteknar við það á næstu árum að skoða hvernig næsta skuldbindingartímabil á að verða eftir 2012 og það er mjög mikil vinna fram undan í tengslum við það allt saman. Við Íslendingar tökum auðvitað fullan þátt í því með öðrum þjóðum. Það hefur ekkert staðið á okkur í sambandi við þessi mál. Við gerðumst mjög snemma aðilar að Kyoto-bókuninni. Við höfum fylgt því mjög fast eftir.

Það er alveg ljóst að bara það að lækka skatta á þeim bílum sem eru hagkvæmari hvað þetta snertir, t.d. ... (MÁ: Eru það pallbílarnir?) Nei, það eru ekki bara pallbílar, hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Ýmis bílaumboð eru t.d. að flytja inn slíka bíla. Það er áhugi fyrir að kaupa þá. Það er líka mikill þrýstingur á bílaframleiðendur að framleiða slíka bíla.

Ég nefni líka metanið. Við höfum töluverða möguleika hér á landi til að nota það. Það eru hugmyndir um að hægt sé að reka allt að tvö þúsund bíla á metani sem Sorpa framleiðir.