Skýrsla iðnaðarráðherra um framkvæmd raforkulaga

Fimmtudaginn 27. janúar 2005, kl. 18:22:30 (3825)


131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[18:22]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er skemmst frá því að segja að ég held að eftir því sem miðstýringin færist lengra frá Vestfjörðum og inn í stærra fyrirtæki muni þjónustan versna og einkanlega á landsvæði eins og Vestfjörðum þar sem hreinlega getur orðið alger einangrun í ákveðnum veðrum og þurfa menn ekki mikla vitneskju til að vita það. Það vita allir landsmenn að slíkt hefur stundum gerst og það hefur jafnvel gerst með þeim hætti að ekki hefur verið samband út af Vestfjörðum við t.d. símakerfi landsins o.s.frv. Ég tel það því til mikils óhagræðis og óöryggis fyrir íbúana ef þjónustan á Vestfjörðum dettur niður.

Við höfum einnig á Vestfjörðum litið svo á að það að eiga Orkubú Vestfjarða, hafa það staðsett á Vestfjörðum og það væri öflugt, væri ákveðin undirstaða og trygging fyrir byggðinni. Menn hafa auðvitað litið á orkubúið á undanförnum árum sem fyrirtæki sem gæti jafnvel styrkt byggðina, fyrirtæki sem styddi við nýsköpun, væri sjálfstætt í ákvörðunum sínum um orku og orkuöflun innan fjórðungsins o.s.frv. Það er auðvitað það sem við höfum viljað sjá en alls ekki að fyrirtækið væri fært í eignabönd miklu stærra fyrirtækis og við sætum eftir með eitthvert útibú og lélega þjónustu.