Vatnalög

Mánudaginn 31. janúar 2005, kl. 16:45:03 (3850)


131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[16:45]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er að verða leiðinlegur plagsiður hjá nokkrum stjórnarandstæðingum að koma eilíflega upp og nöldra yfir því hverjir eru ekki í þingsalnum. Ég minnist þess ekki að hv. þingmaður, sem gerði þetta að umtalsefni núna síðast hafi verið viðstödd alla þá umræðu sem hér fer fram og hefur enginn verið að fetta fingur út í það, enda hefur hv. þingmaður ugglaust sínar ástæður fyrir því.

Ef hv. þingmaður hefur ekki tekið eftir því að þá er nokkur algengt að þingmenn sitji inni á skrifstofum sínum og fylgist með umræðunni, það er nefnilega hægt líka. Þó finnst mér steininn taka úr þegar hv. þingmaður veitist að hv. formanni iðnaðarnefndar, hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, og gerir athugasemdir við að hann sé ekki viðstaddur. Eins og hæstv. forseti hefur upplýst hefur þingmaðurinn fjarvistarleyfi í dag og það hefði hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir getað kynnt sér.

Það er orðið fjandi hart ef hv. þingmenn geta ekki fylgt ástvinum sínum við jarðarför án þess að gerðar séu athugasemdir við það. Mér finnst það ósmekklegt í meira lagi og geri alvarlega athugasemd við slíkt nöldur sem hér átti sér stað, frú forseti.

(MÁ: Þetta var ósmekklega orðað.)

(Forseti (ÞBack): Forseti vill biðja hv. þingmann að gæta orða sinna, núna og framvegis.)