Vatnalög

Mánudaginn 31. janúar 2005, kl. 16:57:44 (3854)


131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[16:57]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þótt það kunni að vera furðulegt að nefna þau í sömu andrá þá held ég að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hæstv. iðnaðarráðherra hafi verið á sveimi í kringum helsta kjarna málsins í ræðum sínum hér í dag. Bændasamfélagið forna er því miður ekki lengur til staðar, þ.e. landið er smám saman að komast í hendur tiltölulega fáum stóreigendum og það breytir í raun inntaki þessara laga frá 1923. Það er rétt að það miðaðist auðvitað við það samfélag.

Samhengið er rakið aðeins í greinargerðinni, einum af bestu köflum greinargerðarinnar. Vatnalögin frá 1923 voru sett í því samhengi að þá voru menn að bregðast við hrákapítalisma sem kom upp á fyrstu tugum síðustu aldar, hjá mönnum sem við lítum til með lotningu og virðingu, eins og Einari Benediktssyni, en líka fjöldamörgum öðrum í slagtogi við erlenda kapítalista. Það sem menn vildu gera með þeim lögum og fleiri ráðstöfunum á þeim tíma var að koma í veg fyrir að vatnsföll, fossar og annað það sem virkjanlegt var, gengi kaupum og sölum og lenti hér á uppboðsmörkuðum í New York, París og Tókíó o.s.frv. Það gerðu menn með því að færa nýtingarréttinn á vatninu til landeigendanna. Það var helsta málið í vatnalögunum á sínum tíma. Af hverju gerðu menn það? Jú, vegna þess að það var talið nokkurn veginn jafngilda því að skynsamir bændur og landeigendur aðrir mundu ekki láta fara svo með sig að ár þeirra, fossar o.s.frv., yrðu teknir til virkjunar í þeim stíl sem menn ætluðu sér á fyrstu áratugum aldarinnar, í skammsýni sem við fyrirgefum mönnum af því þeir lifðu þá tíma að ekki var hægt að horfa lengra.

En nú eru aðrir tímar og nú þurfum við að breyta þessu aftur vegna þess að bændasamfélagið er horfið. En markmiðið á að vera hið sama, að við stjórnum þessum auðlindum okkar með skynsamlegum hætti, nýtum það sem við teljum vera nýtanlegt, verndum annað, annaðhvort til allrar framtíðar eða þá a.m.k. til þeirra tíma að menn geta tekið á því með betra viti en við höfum í dag.