Gjaldfrjáls leikskóli

Mánudaginn 31. janúar 2005, kl. 17:28:29 (3871)


131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

25. mál
[17:28]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga um gjaldfrjálsan leikskóla. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að skipa nefnd sem fái það verkefni að undirbúa og annast viðræður við sveitarfélögin um sameiginlegt átak þeirra og ríkisins um að gera leikskóladvöl gjaldfrjálsa í áföngum. Nefndin verði skipuð fulltrúum allra þingflokka og fulltrúa frá fjármálaráðuneyti, menntamálaráðuneyti og Félagi leikskólakennara auk formanns sem félagsmálaráðherra skipi án tilnefningar.“

Hér er um endurflutta tillögu að ræða sem einnig var lögð fram á síðasta þingi en varð þá ekki útrædd. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum gert þetta mál að sérstöku baráttumáli okkar. Við gerðum þetta að kosningastefnumáli við alþingiskosningar 2003. Þetta er veigamikill hluti af velferðar-, uppeldis- og menntamálastefnu okkar. Félagsmálanefnd hafði málið til skoðunar á síðasta þingi í framhaldi af 1. umr. og sendi málið út til umsagnar og þær sem nefndinni bárust voru yfirleitt jákvæðar. Tekið var vel í meginefni tillögunnar en eðlilega lögðu umsagnaraðilar og ekki síst sveitarfélögin áherslu á að þau þyrftu að fá fullnægjandi tekjustofna ef takast ætti að ráðast í verkefnið.

Það hefur að sjálfsögðu verið ætlun okkar flutningsmanna allan tímann, samanber þá greinargerð sem fylgdi tillögunni upphaflega. Það er ástæða til að leggja áherslu á þann þátt og undirstrika hann í ljósi bágrar afkomu sveitarfélaganna og síst batnandi um þessar mundir.

Það er ánægjulegt til þess að vita að hreyfing er að komast á þessi mál a.m.k. hjá tveimur sveitarfélögum sem mér er kunnugt um. Búið er að stíga fyrstu skrefin í þá átt hjá Reykjavíkurborg þar sem ákveðið skref í áttina að gjaldfrjálsum leikskóla var tekið frá og með 1. september sl. Síðan þá hafa öll fimm ára börn átt kost á þremur tímum á dag endurgjaldslaust og þetta geta menn séð ef þeir líta í fylgiskjal með tillögunni þar sem gjaldskrá Leikskóla Reykjavíkur er birt og kemur skýrt fram að verð fyrir fyrstu stundirnar hjá fimm ára börnum er mun lægra en annar hluti gæslunnar.

Ég veit einnig til þess að sveitarfélagið Fjarðabyggð var með tillögur í þessa veru í fjárhagsáætlun sinni. Ég náði því miður ekki að fylgjast með framvindu málsins eða kanna það í dag fyrr en eftir að búið var að loka bæjarstjórnarskrifstofum þar eystra, hvort þetta hafi ekki orðið að veruleika, sem ég treysti að sé, og þá eru a.m.k. tvö sveitarfélög beinlínis lögð af stað inn á þessa braut. Þau eru væntanlega fleiri án þess að mér sé kunnugt um og auðvitað veit ég að þessi mál hafa verið rædd víðar og um þau hugsað og um þau skrifað, einhverjir sveitarstjórnarmenn í Kópavogi munu hafa haft hugmyndir uppi í þessa veru fyrir nokkru.

Einnig má minna á að í Svíþjóð varð þetta að stóru og miklu kosningamáli við síðustu alþingiskosningar og vinstri flokkarnir þar, sem héldu völdum í landinu, lögðu m.a. áherslu á þetta sem velferðar- og fjölskyldumál og lögðu til grundvallar þeim áherslum sínum að bjóða ekki upp á skattalækkanir í aðdraganda kosninga þar í landi, öfugt við það sem við máttum búa við, heldur þvert á móti hið gagnstæða að byggja málflutning sinn á því, þ.e. sósíaldemókratar og vinstri flokkurinn og væntanlega græningjar einnig, að áform þeirra stæðu til þess að efla velferðarkerfið og halda til þess óbreyttu skattstigi, halda inni þeim tekjum sem ríki og sveitarfélög um þessar mundir, nota þá ávinninginn til þess að efla velferðarsamfélagið, t.d. með því að hefja þróun í átt að gjaldfrjálsum leikskóla. Nú eru fyrstu skrefin komin til framkvæmda í þessum efnum og þar er um að ræða í raun og veru samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga svipað og hér er lagt til.

Það er nokkuð um liðið síðan leikskólinn var viðurkenndur sem fyrsta skólastigið og þegar af þeirri ástæðu er auðvitað eðlilegt að menn taki þessa hluti til skoðunar. Það er órökrétt og ekki nein sérstök rök fyrir því að menn skuli borga dýr gjöld fyrir dvöl barna sinna á leikskóla sem síðan falli niður þegar komið er upp á næsta skólastig, þ.e. upp í grunnskólann, þegar búið er að skilgreina leikskólann að lögum sem skóla, setja honum námskrá og gera kröfur til hans beinlínis um fræðsluhlutverk eins og gert er. Það er mat Félags leikskólakennara að um sex tíma þurfi á dag ef vel eigi að vera, sex tíma leikskólagöngu án endurgjalds, ef hægt eigi að vera á þeim tíma að fullnægja svo sómi sé að því hlutverki sem leikskólunum er falið með aðalnámskrá, sinna öllum þeim námssviðum sem þar eru tekin fyrir, þ.e. hreyfingu, málrækt, myndsköpun, tónlist, náttúru, umhverfi, menningu, samfélagið o.s.frv.

Það er ljóst að niðurfelling leikskólagjalda yrði gríðarleg kjarabót fyrir fjölskyldur með ung börn og sú kjarabót skilar sér beint til fjölskyldna sem flestir eru sammála um að séu í mikilli þörf fyrir betri aðbúnað og afkomu. Tekið yrði skref í áttina til fjölskylduvæns samfélags og yngstu foreldrarnir, þeir hinir sömu og eru að koma sér fyrir í lífinu, leysa t.d. húsnæðismál sín, fengju þarna verulega kjarabót.

Mánaðarleg leikskólagjöld eru nú víðast hvar um og yfir 30 þús. kr. fyrir fyrsta barn fyrir níu tíma á dag. Þannig borga fjölskyldur með tvö börn á leikskóla gjarnan um 50 þús. kr. á mánuði miðað við að systkinaafsláttur sé 30–35% með öðru barni, og dæmi eru um að fjölskyldur með þrjú börn séu að borga allt að 60 þús. kr. á mánuði, ein og sama fjölskyldan, fyrir þrjú börn í leikskóla og er þá gengið út frá því að systkinaafsláttur með þriðja barni sé 75%. Það er augljóst mál að slík fjölskylda þarf miklar viðbótartekjur á mánuði hverjum eða um 100 þús. kr. fyrir skatta til þess að standa straum af slíkum útgjöldum.

Það er að sjálfsögðu óumdeilanlegt að hér væri á ferðinni mikið jafnaðar- og jafnréttismál. Þetta mundi jafna mjög aðstöðu fjölskyldnanna í landinu að tryggja öllum börnum leikskóladvöl án tillits til efnahags. Það er sérstök ástæða til að huga að stöðu nýrra Íslendinga. Kannanir liggja fyrir sem sýna að þar er tilhneigingin ríkari en annars staðar til að spara sér þessi útgjöld eða af einhverjum ástæðum senda slíkar fjölskyldur ekki börn sín í leikskóla og það eru þó þau sem kannski hefðu meiri þörf fyrir það en öll önnur að kynnast jafnöldrum sínum og aðlagast umhverfi sínu.

Það er auðvitað ljóst að til þess að þetta takist þarf að nást gott samstarf ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélögin þurfa að sjálfsögðu fjármuni til að standa straum af þessu verkefni, ekki bara rekstrarkostnaði heldur líka þeim stofnkostnaði sem óhjákvæmilegt er að ráðist yrði í til þess að haldist gætu í hendur réttur foreldranna til leikskóladvalar án endurgjalds fyrir börnin og skyldur sveitarfélaganna þá til að uppfylla þörfina eða sjá fyrir henni. Þessu eiga menn að mínu mati ekki endilega að blanda saman við spurninguna um skólaskyldu eða ekki skólaskyldu í þessu samhengi. Það í sjálfu sér getur meðhöndlast sem sjálfstætt mál þó að auðvitað hnígi mörg rök til þess að afgreiða það í einu og sama laginu. Við leggjum málið þannig upp að þetta yrði gert í áföngum svipað og þróunin hefur orðið hjá þeim sveitarfélögum sem eru lögð af stað, t.d. með því að gera síðasta árið eða fastan tímafjölda á degi hverjum á síðasta árinu hjá fimm ára börnum gjaldfrían fyrst o.s.frv.

Hitt er alveg ljóst að möguleikum sveitarfélaganna til að gera stóra hluti í þessum efnum eru afar þröngar skorður settar, aðstaða þeirra er misjöfn þannig að eigi að takast að gera þetta almennt verður að takast það samstarf ríkis og sveitarfélaga sem við erum hér að leggja til.

Þá er komið að tekjunum. Ljóst er að kostnaður sveitarfélaganna vegna dagvistunar er umtalsverður. Hann losaði 11 milljarða kr. árið 2002 og á móti eða upp í þann kostnað eru tekjur sem nema um 2,8 milljörðum, rétt um 25%. Þess ber að geta að á þessu ári eru komnar til framkvæmda breyttar reikningsskilaaðferðir hjá sveitarfélögum þar sem húsnæðiskostnaður er reiknaður inn sem hluti af útgjöldum í þessum málaflokki og það hækkar nokkuð tölurnar og veldur því að tekjurnar sem hlutfall af heildarútgjöldum falla úr u.þ.b. 30%, eins og þær voru mjög víða áður, í nær 25%. Ekki þarf að deila um það að sveitarfélögin eru ekki aflögufær miðað við afkomu sína núna og alveg ljóst að ríkið þarf að koma til sögunnar með því að opna sveitarfélögunum frekari tekjumöguleika en nú er og/eða með því að létta af sveitarfélögunum gjöldum. Við leggjum til að það verði skoðað að ríkið yfirtaki að öllu leyti greiðslu húsaleigubóta. Þar með yrði hægt að samræma vaxtabætur og húsaleigubætur í einum málaflokki innan skattkerfisins sem hefur einmitt verið stefna okkar.

Ég minni á tillögur okkar í skattaumræðunni frá því fyrir áramót þar sem við lögðum til að sú prósenta í tekjuskatti sem þá var lækkuð færðist yfir í útsvarsheimildir sveitarfélaga. Þá með einni slíkri aðgerð væri meira en séð fyrir þeirri þörf sem sveitarfélögin hafa til að mæta útgjöldum af þessu tagi.

Það er að mínu mati enginn vafi að færa má margvísleg frekari rök en þau sem eru félagslegs, menningarlegs og menntunarlegs eðlis og snúa að jöfnuði og jafnrétti í landinu fyrir þessari tillögu. Ég tel auðvelt að færa fyrir því rök að þjóðhagslega væri um brýnt hagsmunamál að ræða. Það er vel þekkt að góð stoðþjónusta, undirstöðuþjónusta af þessu tagi er mikils metin þegar kemur að því að skoða umhverfi t.d. fyrir atvinnurekstur. Forsvarsmenn slíkra fyrirtækja eða þeirra sem sérhæfa sig í að veita ráðgjöf varðandi val á staðsetningu fyrir atvinnulíf horfa mjög gjarnan einmitt til þess hvernig stoðþjónustan er og ekki síst við ungt fjölskyldufólk sem er það vinnuafl sem menn eru gjarnan á höttunum eftir þegar þeir eru að setja af stað nýja atvinnustarfsemi. Þjóðhagslega er það því víðast hvar viðurkennt að í því felist mikið hagræði að hafa öfluga leikskóla og auðvitað skóla og aðra þjónustu, það geti leitt til aukinnar framleiðni og betri og meiri samkeppnishæfni í atvinnulífinu. Það væri fróðlegt fyrir menn að fylgjast með umræðum, ef þeir gera það ekki nú þegar, sem fram fara í Noregi einmitt um þessar mundir þar sem er tekist mjög á um mismunandi stefnur í leikskólamálum, þar sem annars vegar eru heimgreiðslur norskra hægri manna sem hafa hrint í framkvæmd þeim gamla draumi íhaldsins hér að borga fólki, og mæðrum þá fyrst og fremst, fyrir að vera heima með börnin sín, og síðan aftur þeir sem eru meira félagslega þenkjandi og vilja berjast fyrir því að allir eigi kost á leikskóladvöl og nota þá gjarnan sem rök það þjóðhagslega óhagræði sem í hinu kerfinu er fólgið, hvað sem menn vilja síðan segja um það félagslega og uppeldisfræðilega.

En að okkar mati er að sjálfsögðu ekki nokkur minnsti vafi á því í öllu falli að það væri gríðarlega stórt framfaramál að þessi kostur stæði öllum til boða og í leiðinni eru menn þá að ná fram þeim félagslegu, menntunar- og uppeldislegu markmiðum sem þessu eru samfara og ég vék að áðan.

Virðulegi forseti. Ég vona að tillagan fái efnislega afgreiðslu á þessu þingi í ljósi þess að málið var sent út til umsagna á síðasta þingi, þær liggja fyrir, og það er flutt hér óbreytt. Hvað tillögugreinina snertir sé ég nú ekki annað en að Alþingi ætti að geta haft sig fram úr því á þessum vetri að afgreiða málið. Það á fullt erindi inn í þá endurskoðun samskipta ríkis og sveitarfélaga sem sumpart er uppi einmitt um þessar mundir og það væri að mínu mati ankannalegt ef framfaramál af þessu tagi kæmist ekki einu sinni á dagskrá í þeim viðræðum ríkisvalds og sveitarfélaga sem þó eiga að heita að standi yfir og tengjast tekjulegum samskiptum þeirra og breyttri verkaskipan o.s.frv.

En fyrst og síðast er þetta mál flutt af okkar hálfu, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem framfaramál sem liður í að byggja upp, efla og bæta það samábyrga velferðarsamfélag og fjölskylduvæns samfélag sem við viljum sjá þróast á Íslandi.