Þriðja kynslóð farsíma

Þriðjudaginn 01. febrúar 2005, kl. 13:34:22 (3894)


131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[13:34]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna þriggja flytjum þessar breytingartillögur við þetta frumvarp um leyfisrekstur á þriðju kynslóð farsíma. Við teljum að það verði að gera nokkrar meginbreytingar á frumvarpinu, í fyrsta lagi vegna þess að fram kom mjög eindregið hjá fulltrúum símafyrirtækjanna sem komu á fund samgöngunefndar að lítill vilji var til þess að fara út í rekstur á þriðju kynslóð farsíma að svo komnu máli. Það voru ekki taldar vera komnar tæknilegar forsendur fyrir því að fara út í slíkan rekstur nema þá lenda í stórfelldu tapi, og eftirspurnin væri ekki til staðar. Sporin frá öðrum löndum hræddu og sérstaklega var þar nefnd tilhögun mála í Bretlandi, hvernig gengið hefði að koma á þriðju kynslóð farsíma þar og breiða hana út. Við leggjum til seinkun á því hvenær útboðin fari fram.

Þá gerum við athugasemdir við að það er allt of lítil útbreiðsluskylda sem kveðið er á um í frumvarpinu. Við teljum að það verði að tryggja miklu betur en hér er á um kveðið að þegar og ef þriðja kynslóð farsíma kemst í gagnið nái hún til sem allra stærsts hluta af landinu líka en ekki einungis til stærstu og þéttbýlustu staðanna á Íslandi. Því leggjum við mikla áherslu á að þar verði bætt verulega úr og útbreiðslan tryggð þannig að landið allt verði aðnjótandi þriðju kynslóðar farsíma.

Þá gerum við, fulltrúar Samfylkingarinnar í samgöngunefnd, ríkar athugasemdir við þá leit sem farin er til að velja þá fulltrúa sem geta fengið leyfi til að reka þriðju kynslóð farsíma. Hér er lögð til svokölluð leið fegurðarsamkeppni þar sem að lokum er um að ræða að ráðherra sker úr um hver fái leyfi til að reka kerfið en ekki opin uppboðsleið. Við leggjum mikla áherslu á að farin verði sú leið að ef tveir jafngildir aðilar sækja um að reka þriðju kynslóð farsíma og fái leyfi til slíks reksturs fari fram opið uppboð þar sem ráði hvor býður betur en ekki geðþótti ráðherra eða stjórnmálamanna hverju sinni. Bjóði tveir jafngildir aðilar í það fari fram uppboð á því hvor fær. Við leggjum til að ef breytingartillögur okkar í stjórnarandstöðunni verða ekki samþykktar, þær felldar, sitjum við hjá.