Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu

Þriðjudaginn 01. febrúar 2005, kl. 15:01:17 (3922)


131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[15:01]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil gjarnan spinna svolítið áfram það sem hefur verið rætt á undanförnum mínútum. Mér finnst t.d. hægt að fagna því að sú hreinskilni hafi verið í umræðunni sem gætti hjá hv. þm. Einari Guðfinnssyni. Hann spurði áðan hvort óeðlilegt væri að menn hefðu hag af því að fá hráefnið til vinnslu sem þeirra eigin skip veiddu. Greinilegt var að hann leit á það sem eðlilegan hlut að hráefnisverðið væri mun lægra en það verð sem hægt er að fá á markaði. Það er gott að menn skuli meðganga þá hugsun sína, því fyrir liggur að útgerðarmenn hafa skrifað undir það í samningum við sjómenn að leita skuli hæsta verðs. Ef menn eru þeirrar skoðunar að hæsta verðið eigi ekki að koma fram tel ég að það sé tvískinnungur í því þó vægt sé til orða tekið sem menn hafa gert þegar þeir skrifuðu undir samninga við sjómennina sína.

Þó það væri ekki annað en sú skuldbinding sem útgerðarmenn hafa gengist undir með þeim undirskriftum ætti það auðvitað að þýða að hér væri fjárhagslegur aðskilnaður til þess að tryggja að hægt væri að standa við þessa samninga. Það hefur ekki verið í gegnum tíðina.

Ég er fyrir mitt leyti á þeirri skoðun, og get sagt það einu sinni enn, að ég er alveg sannfærður um að það yrði gríðarleg sprenging í sjávarútveginum ef allur fiskur færi um markaði, ef öll fyrirtæki í sjávarútvegi þyrftu að standa í samkeppni um hráefni á markaði. Það þarf ekki annað en fara í þau fyrirtæki sem hafa lifað af í því óvinsamlega umhverfi sem hefur verið hvað varðar fiskvinnsluna í landinu, þar sem fiskvinnslufyrirtæki án útgerðar hafa raunverulega staðið frammi fyrir því að keppa við fyrirtæki sem fengu úthlutun á aflaheimildunum og eru að keppa á sömu mörkuðum og þau um afurðir á erlendum mörkuðum — þau fyrirtæki fengu sem sagt úthlutanirnar í forgjöf. Þær úthlutanir eru í dag á milli 300 og 400 milljarða virði.

Halda menn að það sé auðvelt að keppa í fiskvinnslu við þau fyrirtæki sem fengu kvótann í forgjöf á markaðinn? Nei, það er sko ekki auðvelt. Það er bara afrek að fiskvinnsla án útgerðar skuli hafa staðið þetta af sér, skuli vera til. Það er einmitt sama fiskvinnslan sem hefur orðið til þess að markaðurinn er orðinn eins og hann er í dag með ferskar afurðir á erlenda markaði. Það er löngu kominn tími til þess að menn breyti þessu fyrirkomulagi. Hvers vegna skyldu menn ekki vera með þetta fyrirkomulag annars staðar en hér? Einfaldlega vegna þess að það er miklu skýrara og skilvirkara að menn séu í því sem þeir eru bestir í.

Ég skil satt að segja ekki hvers vegna menn í sölum Alþingis eru á þeirri skoðun að þeir sem ekki ráða við verðið á markaðnum og geti ekki keppt um verðið á markaðnum þurfi einhverja sérstaka vernd með reglum frá hv. Alþingi. Þeir sem geta ekki borgað nema 80 kr. fyrir hráefnið eigi að fá einhverja sérstaka vernd gagnvart hinum sem geta borgað 120 kr. En það hefur verið í gangi allan tímann og menn vilja verja með öllum ráðum. Það er ekki einu sinni skilningur á því að þeir aðilar þurfi a.m.k. að standa frammi fyrir því að það sé skýr fjárhagslegur aðskilnaður þannig að hægt sé að sjá hvaða verð þetta eru nákvæmlega. Hvað mundi gerast þá? Það er bara eitt sem mundi gerast ef ekkert annað breyttist í þeirra rekstri, að þeir yrðu að fara að borga sjómönnunum rétt verð eins og fæst fyrir fisk á markaði. Auðvitað yrði það útgjaldaaukning fyrir mörg þessara fyrirtækja.

Ég er hins vegar á þeirri skoðun að ef menn kæmust einhvern tíma alla leið í málinu þar sem allur fiskur færi á markað og tæki þar verð yrði auðvitað að stokka alla þessa hluti upp, menn þyrftu að semja upp á nýtt. Það hefur aldrei verið eðlilegt að sjómenn fengju skipt út úr fiskverði með kvótaverðinu ofan á. Það hefur aldrei verið eðlilegt og það skal ég segja í þessum ræðustól. Auðvitað hefðu menn þurft að breyta þessum hlutum ef koma hefði átt einhverjum eðlilegum skiptum með þetta.

Það er fleira sem kemur að á hv. Alþingi og menn hafa rætt á undan í umræðunni. Það er t.d. með þennan gámafisk. Hvaða skýringar eru á því að menn skuli flytja fisk út í gámum og fyrir hann skuli fást mun lægra verð en það verð sem er á mörkuðum? Hvaða skýring er á því frá útgerðarmönnum? Hefur það verið skoðað? Hefur t.d. Samkeppnisstofnun kíkt á þetta mál? Ég efast um það. Samkeppnisstofnun hefur ekki fengist til þess að skoða málefni sjávarútvegsins fram að þessu. Það er einhver maðkur í mysunni þegar útgerðarmenn vilja ekki hæsta verð á markaði, þegar þeir vinna ekki einu sinni fiskinn sjálfir. Hvers vegna vilja þeir þá ekki hæsta verð á markaði?

Það er bara ein skýring til á því — þeir fá einhverja fjármuni sem ekki sjást í bókhaldinu hjá þeim. Það er svo einfalt. Það getur ekki verið sú skýring fyrir hendi að menn haldi áfram að selja á markaði þar sem þeir fá miklu lægra verð en þeir gætu fengið annars staðar. Sú skýring heldur ekki, hún gengur ekki upp. Hin er miklu líklegri að ekki komi allt til grafar sem um er að tefla sama með hvaða hætti það er, ég ætla ekki að spá um það. Ýmislegt getur spilað inn í þetta, t.d. hvernig kvóti er reiknaður o.s.frv. Það er að mörgu að hyggja þegar verið er að gá að því hvort menn séu að ákveða hlutina skynsamlega en ég efast ekki um að útgerðarmenn geri það þó fyrir liggi að verðið sem sést að borgað sé sé lægra í þessu tilfelli.