Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu

Þriðjudaginn 01. febrúar 2005, kl. 16:31:34 (3946)


131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[16:31]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þingmaður erum sammála um að auðvitað eigi stefnan að vera þannig að það gefi þjóðinni sem mest í aðra hönd sem sjávarútvegurinn er að fást við. En við höfum ekki sömu skoðanir á því hvernig best sé að gera þá hluti. Ég hef t.d. heldur ekki þessar óskaplegu áhyggjur af stóru fyrirtækjunum í sjávarútvegi þó að það kæmist á eðlilegt samkeppnisumhverfi í sjávarútveginum. Ég held að þau muni standa sig ágætlega í því. En það munu verða miklar breytingar. Það var það sem ég átti við með sprengingu. Það munu verða miklar breytingar. Sérhæfingin mun aukast í sjávarútveginum í heild eins og hún gerði gagnvart þeim fyrirtækjum sem hafa verið að vinna á markaðnum eftir að hann kom og þannig verður hagræðing í allri þessari vinnslu. Ég held að það sé ekki vafi á því að það mundi verða til mikils góðs fyrir sjávarútveginn í landinu og alveg sérstaklega auka fiskvinnslu í landinu og minnka útflutning á óunnum fiski.