Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu

Þriðjudaginn 01. febrúar 2005, kl. 16:33:45 (3948)


131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[16:33]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hin litlu sjávarpláss eiga nú við vanda sem hefur orðið til vegna sjávarútvegsstefnunnar. Það mundi minnka þennan vanda ef aðgangurinn að hráefninu væri frjáls vegna þess að þá gætu komið upp fiskvinnslur og staðið áfram fiskvinnslur sem eru í þessum litlu sjávarplássum. Vandi þeirra er sá, og þess vegna hafa þær margar lokað, að þær hafa ekki aðgang að hráefni og þessi aðgangur hefur hreinlega verið að minnka á undanförnum árum. Það kemur minna á fiskmarkaðina en áður.

Ég tel að það sé ekki spurning að fiskvinnslan í landinu mundi aukast og það yrði fiskvinnsla sem stæði undir sér sem mundi aukast — það yrði ekki fiskvinnsla sem þarf að hafa áhyggjur af vegna þess að hún geti ekki borgað hæsta fiskverð. Fiskvinnsla sem kaupir á markaði er að glíma við hæsta verðið. Verðið mundi auðvitað eitthvað lækka í heild ef allur fiskur færi um markaði en það mundi líka auka vinnsluna verulega mikið.