Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu

Þriðjudaginn 01. febrúar 2005, kl. 16:47:28 (3960)


131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[16:47]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal virðist gera ráð fyrir því að við þá einföldu athöfn að skilja í sundur veiðar og vinnslu hverfi fiskvinnsla af Eyjafjarðarsvæðinu. Ég vil gjarnan fá staðfestingu á því að þetta sé skoðun hans vegna þess að þá gerir hann jafnframt ráð fyrir því að fiskvinnsla á Eyjafjarðarsvæðinu sé í sjálfu sér óhagkvæm nema með þeim sérstaka stuðningi sem sú fiskvinnsla hefur nú af því að sterk útgerðarfyrirtæki eru stödd þar. Það er sem sé skoðun hv. 2. þm. Norðurl. e. að fiskvinnsla á Eyjafjarðarsvæðinu sé í sjálfu sér óhagkvæm og að koma þurfi til þessi sérstaki stuðningur sem fiskvinnslan hefur af tengslum sínum við sjávarútveginn. Þetta vildi ég gjarnan fá að heyra.

Í öðru lagi er mér illa við að svara spurningum nákvæmlega án þess að leita heimilda og mér hefur ekki tekist það í þingsalnum. Hér eru ekki tölvur við höndina, eins og hv. þingmaður veit ágætlega, en ég hygg að hér sé um að ræða landsfundarsamþykkt flokksins frá þar síðasta landsfundi en skal kanna það betur þegar við komum í 2. umr. um sjávarútvegsmál, ég og hv. þm. Halldór Blöndal.