Endurskoðun á sölu Símans

Þriðjudaginn 01. febrúar 2005, kl. 18:24:10 (3977)


131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[18:24]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson talaði mjög hóflega hér áðan og þess vegna liggur kannski ekki beinast við að beina andsvari mínu til hans. Hins vegar sló það mig mjög í umræðunni áðan — af því að ég var að reyna að glöggva mig á málinu og hver fyrirætlun Samfylkingarinnar væri með þessu máli — þau stóru orð sem aðrir flokksmenn Samfylkingarinnar höfðu hér uppi, til að mynda staðhæfingar um það, án þess að ég nefni nokkra sérstaka þingmenn, að Síminn hefði hreðjatak á samkeppnisaðilum sínum og hann beitti bæði tæknilegum hindrunum og hindrunum með verðlagningu.

Það er náttúrlega alveg ljóst að Síminn hefur ráðið yfir grunnnetinu en með fjarskiptalögunum á að vera tryggt að Síminn hleypi hindrunarlaust öllum samkeppnisaðilum sínum um samkeppnisreksturinn inn á grunnnetið. Og vegna þessara stóru staðhæfinga leikur mér forvitni á að vita, af því líka að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hélt því fram að ekkert fyrirtæki ætti jafnmörg mál hjá Samkeppnisstofnun, hversu mörg af þessum málum hafi verið úrskurðuð Símanum í vil, og það sem skiptir máli varðandi ætlaðar hindranir, hversu mörg mál þetta fyrirtæki á hjá Póst- og fjarskiptastofnun, af því að allt sem varðar hindranir í aðgangi að grunnnetinu heyrir undir þá stofnun.

Ég leyfi mér því að beina þessari spurningu til hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar: Hversu mörg mál eru þetta? Af því að þingmenn Samfylkingarinnar hafa ekki borið annað fyrir sig en fréttaflutningi frá samkeppnisaðilum Símans.