Endurskoðun á sölu Símans

Þriðjudaginn 01. febrúar 2005, kl. 18:26:12 (3978)


131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[18:26]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að sá sem hér stendur sé mikill áhugamaður um heiðarlega og öfluga samkeppni verð ég að játa að ég er ekki með þær tölulegu staðreyndir á hreinu um hversu mörg mál hefur verið úrskurðað hjá Samkeppnisstofnun og Póst- og fjarskiptastofnun frá því að þessar stofnanir voru settar á laggirnar. Hins vegar tel ég mig muna það rétt að elstu málin séu frá árunum sennilega 1995 og 1996, og síðan hefur því verið haldið fram af samkeppnisaðilum Símans að beitt hafi verið tæknilegum viðskiptahindrunum með skipulegum hætti til þess að koma í veg fyrir að önnur fyrirtæki njóti sama aðgangs að almenningi og Síminn hefur.

Á hinn bóginn væri mér það bæði ljúft og skylt að afla þessara upplýsinga þar sem ég hef þær ekki í handraðanum. En ég veit að þetta eru mörg mál og ég veit að mörg þeirra hafa gengið og gengu sérstaklega Símanum í mót á síðari hluta tíunda áratugarins. Ég þekkti þessa sögu kannski örlítið betur þá en ég geri í dag.

Það er hins vegar alveg ljóst og það er ekkert „óeðlilegt“ við það að Síminn reyni að tryggja stöðu sína og noti þau tæki sem hann hefur til þess. Það reynir hvert einasta fyrirtæki að tryggja sinn hag eins og kostur er. Af þeim sökum er óeðlilegt að einhver aðili eða eitthvert fyrirtæki hafi þá stöðu að aðrir þurfi að koma á hnjánum til þess að hafa þann aðgang sem aðrir hafa til þess að tryggja jafna samkeppnisstöðu. (Forseti hringir.) Það er lykilatriði.