Endurskoðun á sölu Símans

Þriðjudaginn 01. febrúar 2005, kl. 18:43:53 (3984)


131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[18:43]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur komið í ljós að lög sem sett voru um fjarskipti hafa virkað. Hitt er annað mál að mér er ekki kunnugt um hversu mikil fjölgun starfsmanna hefur verið hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Það er dálítið merkilegt ef hv. þingmaður hefur upplýsingar um að fleiri mánuði taki fyrir aðila úti á landi að fá úrskurð í málum sem lögð eru fyrir þá stofnun þá kemur það mér verulega á óvart í ljósi þess að þar liggur aðeins eitt kvörtunarmál fyrir. Þá má a.m.k. ætla að þar sé hratt unnið fyrst ekki hafa safnast upp ágreiningsatriði, eins og hv. þingmaður kom inn á.

En ég er alveg sannfærður um að lög um fjarskipti munu tryggja öðrum aðilum greiðan aðgang að nettengingu þeirri sem fyrir er. Ég tel að við þurfum ekki að óttast að Síminn beiti einokunaraðstöðu gagnvart öðrum fyrirtækjum sem vilja komast inn á nettenginguna. Það segir sig sjálft, eins og ég sagði áðan, að það eru 52% þeirra sem fá internetþjónustu sem eru á háhraðatengingu Símans.