Kynja- og jafnréttissjónarmið í fjárlagagerð

Miðvikudaginn 02. febrúar 2005, kl. 12:09:57 (3998)


131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Kynja- og jafnréttissjónarmið í fjárlagagerð.

361. mál
[12:09]

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Með þátttöku okkar Íslendinga á heimsráðstefnu kvenna í Beijing 1995 tókum við á okkur ákveðnar skuldbindingar. Þá skuldbundu Norðurlöndin sig til að flétta kynja- og jafnréttissjónarmið inn í alla pólitíska ákvarðanatöku. Þetta hefur á ensku verið kallað „gender main streaming“. Þetta á m.a. við um gerð fjárlaga sem gegna lykilhlutverkum í pólitískum forgangsverkefnum landanna. Fjárlög sem eru gagnsæ og vel unnin hvað varðar kynjasjónarmið hafa mikla þýðingu til að tryggja þróun í átt til jafnréttissamfélags, bæði hér á Íslandi sem og annars staðar á Norðurlöndunum. Allir vita sem hafa komið nálægt stjórnmálastarfi að fjárlög eru aðalstýritækið varðandi alla stefnumótun sem þingið kemur fram með. Fjárlögin eru aðalskjalið, má segja, þannig að það er mjög mikilvægt að Ísland standi sig vel í þessu verkefni og nái að samtvinna jafnréttissjónarmið inn í fjárlagagerðina.

Í þessu norræna verkefni á að koma á fót samvinnuhópi og það eru tveir aðilar frá Íslandi í honum, Eyþór Benediktsson frá fjármálaráðuneytinu og Silja Bára Ómarsdóttir frá Jafnréttisstofu. Það á sem sagt að koma á samvinnu milli fjármálaráðuneyta og fleiri aðila til að vinna aðferðir til að meta fjárveitingar á forsendum jafnréttis. Þetta er örugglega frekar flókið en Norðurlöndin eru á fullu í að koma þessu í gagnið núna og því mjög spennandi að heyra hvað hæstv. fjármálaráðherra hefur að segja um verkefni okkar. Hér á Íslandi var ákveðið að okkar verkefni fælist í að gera úttekt á almannatryggingakerfinu sérstaklega og skoða hvernig örorkugreiðslur færu til kynjanna. Það er alveg ljóst að í gegnum tíðina hafa verk kvenna verið minna metin fjárhagslega en verk karla og allir vita að hefðbundin kvennastörf, aðallega þessi umönnunarstörf, hafa færst út á stofnanir og þar eru þau frekar lágt launuð. Það er hægt að koma með mörg dæmi um það hvernig staða kvenna hefur verið slakari en staða karla varðandi laun og varðandi hvernig fjárlögin koma út gagnvart ólíkum hópum, þ.e. gagnvart kynjunum.

Mér finnst þetta verkefni afar spennandi. Það er mikilvægt að við stöndum vel við bakið á því og mig langar að inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvert þetta verkefni er komið og hvort staðið hafi verið myndarlega fjárhagslega á bak við það. Spurning mín hljóðar svo, virðulegi forseti:

Hvernig miðar því verkefni hér á landi að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið í fjárlagagerð?