Sala ríkiseigna

Miðvikudaginn 02. febrúar 2005, kl. 12:31:15 (4009)


131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Sala ríkiseigna.

412. mál
[12:31]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það þarf ekki að setja lög sem þegar eru í gildi. Það þarf ekki að setja reglur sem búið er að setja. Það gilda um þetta skýr lagaákvæði og skýrar reglur, m.a. í reglugerð sem ég hef hér í höndunum og nefndi í mínu fyrra svari. En aðalatriðið er, og það hygg ég að þingmenn séu almennt sammála um, að það þarf að standa vel að sölu ríkiseigna og það þarf að gera það með eðlilegum hætti á grundvelli þessara reglna og ég held að það hafi í aðalatriðum tekist í gegnum tíðina. Það er mikilvægt að ríkið fái sannvirði fyrir sínar eignir og að almenningur sem tekur þátt í viðskiptum eða vill eignast það sem verið er að selja hafi traust á því að allt sé með felldu í slíkum viðskiptum.

Það má hins vegar ekki rugla saman aðferðinni við að selja tiltekna eign eða fyrirtæki og svo hins vegar því hvað gert er við andvirðið. Mér virtist gæta ákveðins misskilnings í ræðu hv. þingmanns Magnúsar Hafsteinssonar hvað það atriði varðar. Hann var ekki ánægður með ráðstöfun á söluandvirði einnar tiltekinnar eignar. Það er annað mál en verið er að spyrja hér um í dag.